Arískir polkar og valsar, og Berlín aftan frá

Það var frábært kvöld í Iðnó í gær. Fyrir fullu húsi túlkaði Hilmir Snær Charlotte von Mahlsdorf svo og þrjátíu og fimm persónur aðrar sem komu við sögu í leikritinu Ég er mín eigin kona. Í einu orði sagt er leikritið stórkostlegt listaverk. Það segir langa sögu mikillar hetju sem berst við að komast af í Þýskalandi á öldinni sem leið.

Það er ekki einfalt mál fyrir viðkvæma drenginn Lothar Berfelde, sem hefur mestan áhuga á kvenfötum og gömlum klukkum, að finna sér leið í gegnum lífið. En það gerir hann samt og kemst af, klæddur kvenfötum og háhæluðum skóm. Hann verður þekktur sem klæðskiptingurinn Charlotte von Mahlsdorf. Hún safnar klukkum og öðrum gömlum munum, endurvekur næturklúbb fyrir homma, lesbíur og bóhema, í Berlín og verður persónugervingur þeirra.

Nasismi og SS, kommúnistar og Stasi, og loks nýnasistar, sem öllum vilja illt og reyna að kremja fólk undir valdi sínu og hroka með ofbeldi, byssum og kylfum, gera atlögur að henni aftur og aftur. En kjarkmikil og einörð kemst Charlotte af. Á sinn kvenlega og stundum kaldhæðnislega hátt segir hún okkur frá lífi sínu og baráttu. Undirtónn verksins er harmrænn og sterkur og greinir maður sársauka og trega einmana sálar sem bjó sér til persónu til að lifa í og komast af. Undirtónn sem heldur manni í heljargreipum allt verkið út.

Leikur Hilmis Snæs er göldrum líkastur. Ótrúleg færni og miklir hæfileikar hans gera allar persónurnar lifandi. Blíðar, tilgerðarlegar og ruddalegar koma þær fram eins og fjöldi fólks leiki í verkinu. Það er töfrum líkast. Hvetjum við alla sem við það ráða að fara og sjá sýninguna á þessum tímum umræðna um homma og lesbíur á Íslandi.

Og þökkum innilega fyrir okkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.