Óáreiðanlegir tímar

Er nú svo komið að lesendur þurfi að tortryggja þær bækur sem hljóta verðlaun á hinum ýmsu sviðum bókmenntanna, vegna þess að á bak við öll verðlaun sem veitt eru séu allt önnur markmið en þau sem lúta að gildi bókmennta? Sé það tilfellið, þá minna tímarnir óneitanlega á tilveruna fyrir fimmtíu árum þegar bókmenntir voru flokkaðar eftir því hvort þær þjónkuðu, fylgdu, vinstri eða hægri pólitík fremur en raungildi sínu.

Þeir tímar voru óáreiðanlegir fyrir venjulegt fólk sem hafði unum af bókmenntum. Og ekki er annað að sjá en að þannig séu tímarnir enn í dag. Óáreiðanlegir. Grein Sigurðar A. Magnússonar, í Lesbók Moggans í gær, hefur rifjað upp þá flatneskju sem viðgekkst á fyrri árum í umfjöllun um bækur. Hún vekur andúð á þeim öflum sem beita fyrir sig valdi, stjórnmálalegu og eða fjárhagslegu, til þess að kúga menn sem ekki eru tilbúnir að kyngja skoðunum sínum og ganga í takt við þá sem valdið hafa.

Las grein Sigurðar A. tvisvar. Fyrsta hluta hennar oftar. Og er í kreppu eftir. Í hugann kemur helst hið fræga Gúlag sem rússneskir ráðamenn sendu óæskilega rithöfunda í útlegð í. Á ég og fullt í fangi með að finna orð og tjá mig svo að hægist um í huganum. Ég hef nefnilega stundum verið að hugga sjálfan mig með því að nú til dags, á dögum fjölgandi háskóla og auðveldara aðgengi fólks að menntun og þekkingu, hlyti mannsandinn að vera hæfari til að meta lífsgildi og gæði og þar með að auðvelda okkur hálfsmíðuðu vögnunum að skilja hlutina.

En maður fær á tilfinninguna að enginn maður sé frjáls. Hin margvíslegu öfl hafi ávallt þörf og finni aðferð til þess að hindra þá sem ekki ganga undirgefnir í takt við þau. Eða þegi ella. Virðist það vera lögmál á öllum stigum og greinum samfélagsins. Ráðlegging Bjarts dalabónda til Jóns litla gæti verið hollráð á þessum tímum: „Það er góður siður að trúa aldrei nema helmingnum af því sem manni er sagt og skifta sér ekki af afgánginum.“ (Halldór Laxness. Sjálfstætt fólk, bls. 393).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.