Hugleiðing við sviplegt fráfall vinar

Það er vandi að fjalla um mannelsku og mannelskandi anda. Orðræða nútímans flokkar slíka umfjöllun undir viðkvæmni og eða væmni. En Guði sé lof fyrir að stöku sinnum verða á vegi manns einstaklingar sem slíkur andi býr í. Helgi Jósefsson var einn sárafárra. Maður elskunnar. Mildi og meðlíðan voru persónueinkenni hans. Nærvera hans hlý, kyrr og sefandi. Ólík anda og andþrengslum nútímans.

Við hittumst fyrst fyrir um það bil 35 árum. Vorum þá báðir meðlimir í hvítasunnuhreyfingunni. Heillaðir af meistaranum frá Nasaret, manni elskunnar. Höfðum upplifað hann koma til okkar gangandi yfir „boðaföllin“ og kyrra stormana. Við ræddum um Jesúm Krist eins og hann væri hjá okkur. Fullir aðdáunar og lotningar. Hrifumst af ástríðufullri göngu hans á meðal haltra, blindra og holdsveikra. Útskúfaðra. Og fundum fyrir löngun til að feta í fótspor hans.

Helgi bjó yfir frábærum hæfileikum. Hann var listamaður og kennari af Guðs náð. Málaði myndir, smíðaði, föndraði og söng og sagði öðrum til af fágætri hæfni, örlæti og nærgætni. Unun var að fylgjast með. Og þeir sem nutu tilsagnar hans búa að því æ síðan og vitna um það. En eins og oft er um menn sem hafa hæfileika umfram venjulegt fólk, þá búa þeir gjarnan við ástríður og umbrot í fylgsnum hugans og þá er ekki auðvelt að vera í félagi þar sem meðalmennska er talin dyggð.

Smellt er á myndina til að stækka hana.

Málverk eftir Helga prýða heimili mitt. Það gerir og snertilistaverkið „Öryggi er mér veitt“, sem sýnir barnsfóstur í móðurkviði og er mótað með það í huga að blindir geti „skoðað“ það með fingrunum. Þegar Helgi söng Guði lof, í samkomum, fylgdi einstakur þokki rödd hans og túlkun, sem fékk áheyrendur til að drekka í sig boðskapinn. Vitnisburður hans var svo einlægur. Ást hans á frelsaranum.

Einhvern tíma á lífsleiðinni gerði samkynhneigð vart við sig hjá Helga. Víst er að bæði langt og strangt hugarstríð hefur farið í hönd. Og undrun. Og grátur og kveinstafir. Árum saman. Hvað skal gera? Vera eða fara? Vafalítið hefur hann þrýst sér upp að brjósti frelsarans og beðið hann um að miskunna sér. Hvert annað gat hann farið? Kærleikskvarði safnaðarins rúmar ekki alla menn. Að minnsta kosti ekki í verki. Vera eða fara? Glíman sem í hönd fór hefur væntanlega staðið annarsvegar um ástríka eiginkonu og yndislega fjölskyldu. Ástmann hinsvegar. Og endaði með því að Helgi ákvað að opna skápinn. Reyna á tilveruna. Væntanlega var hvorugt auðvelt. Að vera eða fara.

Eftir fáein ár upplifði hann sig í einskismannslandi. Það er vondur staður. Þar frjóvgast banvænar hugsanir eins og sú að hvorki sé hægt að halda áfram né snúa við. Hugsunin ólgar og hvolfir sér yfir mannshugann með nístandi angist. „Ég get ekki meir. Frelsari minn. Ég kem til þín. Kem til þín. Kem.“ Helgi batt enda á líf sitt í desember síðastliðnumn. Aðeins fimmtíu og átta ára gamall. Það er mikill sorgaratburður. Mikið tjón. Álengdar standa vinir og drjúpa höfði, harmi slegnir. Og hugsa: „En ef….?“ Sem gagnslaust er.

Vil ég af einlægu hjarta votta samúð mína, Arnbjörgu, Aðalbjörgu Stefaníu, Sonju Dröfn, Þórdísi Ósk og öðrum ástvinum Helga. Bið Guð, sem við allt of sjaldan skiljum, um að græða hjörtu þeirra og blessa minningu Helga. Minning og myndir um yndislegar samverustundir þar sem vinsemd hans og mannelskandi andi ljómuðu og töfruðu alla í nálægð hans munu lifa. Horfum á það.

Eitt andsvar við „Hugleiðing við sviplegt fráfall vinar“

  1. Fann disk á netinu sem hafði að geyma gamla tónlist frá Samhjálp – Gunní að syngja um Davíð og Batsebu, uppáhalds lagið mitt. Minnist ánægjulegra tíma/stunda þar sem fólk sat í stofunni heima og hló og naut góðra veitinga. Í bakgrunni hljómaði platan frá Samhjálp. Fór í framhaldinu að skoða síðuna þína til að reyna að sjá hvar fólkið þitt er í dag. Las þá aftur þessa fallegu grein sem þú skrifaðir um pabba. Takk fyrir það, hans er sárt saknað. Kveðja, Sonja Dröfn Helgadóttir (öðru nafni Guðmundur…)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.