Áramót – tímamót

Við horfum til baka og reynum að læra af því sem við sjáum. Við horfum fram og reynum að gera betur en á liðnu ári. Oftast er hægt að gera betur. Til þess er þó nauðsynlegt að skoða sjálfan sig, hug sinn og hugsun, gagnrýnum augum. Hugurinn er nefnilega vandmeðfarinn staður. Fleiri mættu leggja sig eftir auknum skilningi á eigin hug. Horfa inn. Hvaða stöðu sem þeir eru í.

Meistarinn frá Nasaret líkti huganum við sjóð. Hann talaði um góðan og vondan sjóð. En í sjóð safna menn því sem þeir telja verðmæti. Það er því áríðandi að vanda verðmætamatið. Þar er tíðarandinn mikill áhrifavaldur. Rykið sem hann þyrlar upp byrgir mönnum auðveldlega sýn á muninn á hismi og kjarna. Hismið er ætíð miklu fyrirferðarmeira. Það fyllir svo til út í öll horn.

Sjóður fullur af hismi hlýtur að vera vondur sjóður. Verðlítill sjóður. Þegar eldur brýst út brennur hismið og í ljós kemur að sjóðurinn er tómur. Það þýðir gjaldþrot. Gjaldþrot hugans, sem er afleit niðurstaða fyrir menn. Þeir reyni því að staldra við og horfa oftar inn í eigin hug til að auka skilning sinn á þeim hyggindum sem kynslóðirnar gáfu nafnið viska og speki. Hvar í eru ofin mannvit og mannelskandi andi. Hið eilífa líf.

Gleðilegt ár.

Eitt andsvar við „Áramót – tímamót“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.