Hvítasunnudagur í sveit

Fyrir margt löngu, eða um það bil 40 árum, á einu þessara tímabila í sögu þjóðarinnar þegar atvinna var í minna lagi, en eins og nú, að verkamönnum tókst ekki að framfleyta fjölskyldum sínum á dagvinnunni einni saman, þá birtist auglýsing frá steypugerð Jóns Loftssonar, sem hljóðaði svo: „Verkamenn vantar strax. Mikil vinna.“

Ég hugðist kynna mér hversu mikil vinnan væri. Hvort hún gæfi kost á meiri eftirvinnu en sú sem ég var í þá. Og hringdi því í verkstjórann sem ég þekkti frá þeirri tíð þegar við vorum báðir vélamenn hjá Reykjavíkurborg, hann kranamaður og ég jarðýtumaður. Hann tók mér með vinsemd, enda hafði farið vel á með okkur áður. „Nei, Óli minn,“ sagði maðurinn, „ það er engin yfirvinna, en mikið að gera í dagvinnunni.“

Niðurstaðan varð sú, að hefði ég ráðið mig í steypugerðina, hefðu launin mín fremur minnkað en aukist. Auglýsingin var því villandi og sagði ég þessum ágæta kunningja mínum það. Hann glotti við. Annað atvik, enn eldra, er um hafragraut. Þá voru feiknvinsælir spurningaþættir í Austurbæjarbíói sem hétu Gettu betur, muni ég rétt, og var þeim útvarpað. Sveinn nokkur Ásgeirsson stjórnaði þessum þáttum. Einhverju sinni var spurningin um hafragraut, hvort keppendurnir kynnu að elda hann og áttu þeir að lýsa aðferðinni.

Þetta fór heldur vel af stað hjá þeim en tvennt vantaði til þess að verðlaun fengust. Annar keppandinn gleymdi saltinu, hinn gleymdi að hræra stöðugt. Úr matreiðslu þeirra gat því ekki orðið nothæfur mannamatur. Þessi atvik tvö komu upp í huga minn þegar ég horfði á samkomu trúfélags í sjónvarpinu í gærkvöldi, hvítasunnudag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.