Það mátti lesa í dagblaði nýlega örstutt viðtal um hvítasunnuna við mann nokkurn sem titlaður var sérfræðingur í málefnum hennar. Kom fram sú skoðun mannsins að helst kysi hann að allir dagar ársins væru hvítasunnudagar. Yfirlýsingar sem þessi minna á orð smábarnsins sem lét þá ósk í ljós um jólin, þegar það hámaði í sig sælgæti, að gaman væri ef alltaf væru jól.
Fólk hefur mismunandi skoðanir á því hvernig halda skuli kristilegar hátíðir og hver skuli vera markmið hátíðanna. Svo er og um hvítasunnuna. Ef stuðst er við ritningarnar virðist eðli hennar vera af mjög alvarlegum rótum. Þar er ekki að finna léttúð og sveiflu. Litli hópurinn sem staðfastur hafði fylgt Jesú frá Nasaret vænti þess að orð hans stæðu. Því lokuðu þeir sig af og þjáðu sig í bæn. „Verði þinn vilji en ekki minn.“ Eða er ekki hin heilagasta bæn ævinlega þjáning?
Meistari þeirra hafði sagt að þeir mundu öðlast kraft, er heilagur andi kæmi yfir þá, og fylltir af honum myndu þeir verða vottar hans. Vottar hans, meistarans Jesú frá Nasaret. „Og skyndilega varð gnýr af himni…“ Þeim birtust eldtungur sem skiptu sér og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust heilögum anda og tóku að tala tungum. Orð sem andinn gaf þeim að mæla. Ekki þeirra eigin orð. Heldur orð andans. Orð sem andinn vildi að kæmu fram og mannfjöldinn fengi að heyra.
Þessi mikli atburður, hinn mikli hvítasunnudagur, segir frá því þegar venjulegir menn afneituðu sjálfum sér og gáfust meistara sínum sem hafði sagt: „Verið í mér, þá verð ég í yður.“ Þau eru mikil alvöruorð, orðin sem Jesús frá Nasaret mælti til þeirra sem vildu fylgja honum. „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér,…“ af heilum hug „…taki sinn kross og fylgi mér.“
Hollt er fólki að hugleiða þessi orð áður en það fær sér aftur á diskinn, sætsúpu.