Læknislyfið ást II

Félagsfælni og kvíði eru rædd í 24 stundum í morgun. Þar kemur fram að margir þjást af þeim sálrænu erfiðleikum. Í bók Jamison, Í RÓTI HUGANS, sem ég vakti athygli á í pistli í gær, segir frá baráttu höfundarins við mikil geðheilsuvandamál.

Af mörgu í bók hennar má læra. Ekki síst fyrir það að hún berst til sigurs og hefur sigur. Þá er bókin enn merkilegri fyrir þá sök að höfundurinn er bæði sjúklingur og hámenntaður geðlæknir. Það er áhugavert að lesa um margar niðurstöður hennar. Einn kaflinn í bókinni heitir, Ástin vakir yfir vitfyrringunni.

Um ástina segir hún m.a.: „Ástin er eins og lífið, órannsakanleg og miklu flóknari en okkur var sagt.“ (Bls.124) Og raunsönn er niðurstaða hennar á næstu blaðsíðu: „Engin ást, hversu mikil sem hún er, getur læknað geðveiki eða dregið úr alvarlegustu tegund þunglyndis. Ástin getur hjálpað manni og gert þjáninguna þolanlegri en maður er alltaf háður lyfjum, hvort sem þau verka, eru til einskis gagns eða eru illþolanleg.“

Þá er lærdómsríkt að lesa þar sem segir frá guðlausri bænastund sem Jamison átti í dómkirkjunni í Canterbury. Hún segir: „En í þetta sinn féll ég á kné án nokkurs algleymis og baðst fyrir án trúar. Mér fannst ég vera utanveltu þarna en fann þó djúpan frið og ró.“ (Bls. 104) Þessi reynsla konunnar vísar til þess hve hagnýt bænin getur verið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.