Með harðsperrur í heilanum

Ekki færri en þrjátíu og fimm stórmenni íslenskra bókmennta hafa tekið völdin í lestrarástunduninni síðustu dægrin. Hjá mér og Beinagrindinni. Eru nöfn sumra þeirra svo svakalega stór í huga manns að það er með talsverðu hiki að maður leggur í lesa greinar þeirra, staddur einn í húsi með beinagrind sem hefur hingað til ekki tileinkað sér bókmenntir að neinu viti.

Bókin sem þessi stórmenni hafa safnast saman í og látið ljós sitt skína, og er yndisleg bók, heitir Engill tímans og kom út árið 2004 í minningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar, bókmenntafræðings og dósents við Háskóla Íslands. Hann lést árið 2004, rétt tæplega fimmtugur.

Það er ekki nóg með að þessi þrjátíu og fimm bókmenntalegu stórmenni stígi þarna fram og ræði sín áhugamál af snilld og skarpskyggni, heldur kalla þau til fylgis við sig og vitna í fjöldann allan af risum heimsbókmenntanna, bæði yngri og eldri. Er bókin því sjór fróðleiks og skemmtunar, íhugunar og vangaveltna.

Það má samt engu muna að ég finni fyrir harðsperrum í smávöxnum heila mínum, angakrílinu, við lesturinn og skilji enn betur en nokkru sinni fyrr stærðarmuninn. En mikil lifandis ósköp er nú samt elskulegt, og hrein og bein Guðsgjöf, að geta fengið aðgang að svona bók og fylgst með hinum knáu pennum og hugsunum þeirra án þess að þurfa aðgangsorð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.