Hann er alfarinn

Janúar er á förum. Þrjátíu og einn dagur. Hann kemur aldrei aftur. Er alfarinn. Mér finnst að ég þurfi að kveðja hann virðulega. Þeim nefnilega fækkar mjög janúarmánuðunum í lífi mínu. Ungum fannst mér þeim mundi aldrei ljúka. En núna, þegar ég er búinn með svona marga, skil ég hvað fáir eru eftir.

Klukkan var að slá fimm. Það eru sjö stundir til febrúar. Mér þótti alltaf minna til febrúar koma. Hann var oftast napur og alltaf stuttur. Þrátt fyrir hlaupárið. En svo ég haldi mig við janúar, þá tókst mér að lesa margar bækur í janúar þetta árið. Ekki svo að ég hafi lokið þeim öllum. Sei, sei, nei. En ég leit við í mörgum. Átti ákaflega spennandi daga með sumum blaðsíðunum. Sumum köflunum.

Það eru til svo frábærir höfundar. Menn sem hugsa djúpt og með velferð mannkynsins í huga. Það er eins og hugur þeirra, hjarta og öll verundin vilji skilgreina og bæta tilveru annars fólks. Mér líður vel í slíkum bókum. Hef ekki lesið reyfara um langt árabil. Enda eru þeir oftast eins og skrítlur sem ekkert skilja eftir. Drepa bara tíma þeirra sem vita ekkert hvað þeir eiga að gera við tímann.

Ég upplifi þessi árin eins og ég sé í námi. Bæti mér upp árin sem ég hefði átt að nýta til náms. Þau koma ekki aftur. Ekki frekar en þessi janúar sem er á förum. Í morgun rakst ég á þessi orð í tímaritinu VAKI 1. tbl. 1952. Ég lýk pistlinum og kveð janúar 2008 með þeim.

„Augljóst er, að rétt settir og réttlátir eru allir stjórnarhættir, þeir sem hafa allra manna velfarnað að takmarki. En hinir, er einvörðungu setja sér velfarnað stjórnendanna að marki, hvíla allir á röngum forsendum og meginreglum langt frá því er stjórnarhættir skyldu, þar sem þeir eru harðstjórn yfir þrælum; borg (ríkið) hins vegar samfélag frjálsra manna.“

Aristóteles, Politica, bók III. Þýð. ókunnur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.