Yfirgengilegur orðhengilsháttur á Alþingi

Það hefði verið fróðlegt að fylgjast með orðræðu á Alþingi ef þingmönnum væri gert að lifa á mánaðarlaunum sem næmu kr. 350.000 fyrir skatta. Hvort þeir væru ekki líklegri til að hugsa sig vel um áður en þeir greiddu atkvæði um álögur og hækkanir á vörum og þjónustu sem kreista blóðið úr almenningi með keðjuverkunum.

Nú heyrist það til þeirra að fimmtíu þúsund kall til hækkunar á lánum skipti engu máli fyrir landsmenn. Engan muni um það.

Það er með ólíkindum hvað orðræðan breytist gjörsamlega frá framboðsfundum og fram yfir kosningar. Hlustandi á ræðurnar sem þingmenn flytja veit maður ekki alveg hvort maður á að hlægja eða gráta. Slík er andagiftin. Sigmundur Ernir átti dágott met þar til þessi setning var flutt í ræðustóli Alþingis:

“Ég geri athugasemd við að forseti skuli gera athugasemd við að við gerum athugasemd við að forseti geri athugasemd við að við gerum athugasemd við fundarstjórn forseta.”

Frá þessu segir Orðið á götunni og í athugasemdum við pistilinn gengst Eygló Harðardóttir, Framsóknarflokki, við orðhengilshættinum.

Þegar Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór stigu í ræðustól í vikunni, blésu í tálknin og veifuðu handleggjum til að undirstrika ákafann, fannst mér froðusnakkið svo yfirgengilegt að ég spurði sjálfan mig hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði virkilega ekki vandaðri málflutning fram að færa. Allt á sömu bókina lært.

Allur minnir farsinn í Alþingishúsinu fremur á látbragðsleik leiklistarhóps áhugamanna en orðræðu ábyrgra fulltrúa þjóðar í háska. Þarna þarf margt að breytast. Það blasir við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.