Hjáróma tómatar

Þetta var undir morgun í fyrradag. Svefninn hafði verið slitróttur eftir klukkan fimm. Ýmsir draumaórar birtust á draumasviðinu. Einn var skringilegastur. Mér fannst ég vera staddur í gömlu sundlaugunum í Laugardal. Þær voru norðan við Sundlaugaveginn. Gömul bygging en góðar útilaugar.

Þar hagaði þannig til að tveir sturtuklefar voru með norðurveggnum í húsinu. Annar fyrir karla, hinn fyrir konur. Þetta voru aflangir klefar, fremur mjóir og sturturnar í röð við útvegginn. Ekki man ég hvað margar. Kannski sjö eða átta. Nú sem ég kom inn í karlaklefann var þar enginn baðgestur fyrir en margir tómatar dreifðir um gólfið. Rauðir, grænir með rauðri slikju og grænir. Þeir rauðu voru nokkuð bústnir en hinir minni.

Það var með nokkru hiki að ég fór inn í klefann. Lokaði svo dyrunum á eftir mér. Nokkur gufa var þarna inni eins og alltaf. Mér varð starsýnt á tómatana. Taldist til að þeir væru liðlega þrjátíu, líklega þrjátíu og fjórir. Loks ákvað ég að fara undir sturtuna sem næst var dyrunum og teygði mig í kranana. Það var þá sem þetta byrjaði.

Tómatarnir, liggjandi á gólfinu og dreifðir um baðklefann, tóku að syngja. Ég get svarið það. Það lyftist efri hluti þeirra og opnaðist einskonar munnur og þeir tóku að syngja. Það heyrðist meira í þeim rauðu til að byrja með en svo söng allur tómatakórinn. Ekki átta ég mig á hvaða lag þeir sungu, en man að þeir voru hjáróma og söngurinn skar mig í eyrun.

Smámsaman tóku þeir að færa sig nær mér. Það var óþægilegt. Ég ákvað að hætta við baðið og fara út og teygði mig eftir húninum á hurðinni. En hann var ekki þar lengur. Þá var gott að vakna.

Eitt andsvar við „Hjáróma tómatar“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.