Einn af leyndardómunum

Í gærkvöldi tókum við fram geislaplötu sem hefur hvílt sig um alllangt skeið í skápunum. Því miður. En eins og gengur með afburða tónlist þá vitjar hún manns aftur og aftur og krefur um samneyti. Þið þekkið þetta. Við settum spilarann af stað og komum okkur fyrir við Horngluggann. Það er með betri stöðum í lífi okkar. Tvö ein heima.

Og tónlistin tók að hljóma: Píanókonsert númer 3 í c-moll fyrir píanó og hljómsveit, eftir Beethoven. Wilhelm Kempff og Berlínar Fílharmóníuhljómsveitin léku. Íbúðin fylltist af þessari undursamlegu tónlist. Eina ferðina enn. Lyfti okkur upp í undursamlegar hæðir, ofar orðum og umræðum.

Það var fyrir rúmum fjörutíu árum sem við tókum að hlusta á Beethoven að einhverju gagni. Höfðum undir leiðsögn Glúms organleikara á Selfossi lifað okkur inn í ýmis orgelverk Bach´s. Stundum tók hann mig með niður í Selfosskirkju og útskýrði fyrir mér eitt og annað tæknilegt atriði í tónsmíði Bach´s. Það voru dýrmætar stundir sem opnuðu leyndardóma.

En nú hlýddum við á Allegro con brio, síðan Largo og loks Rondo. Allegro. Það er svo yndislegt þegar maður kann verkið meira og minna og væntir næstu brigða. Sérleg ánægja og straumar hríslast um innri veru manns og allt verður svo gott, fjarri niðurdrepandi daglegu amstri.

Gamla settið læðir hönd í hönd. Það er einskonar staðfesting á ánægju sem tveir einstaklingar hafa átt saman í gegnum tíðina. Einn af leyndardómunum.

Eitt andsvar við „Einn af leyndardómunum“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.