Bækur eru dásamlegir félagar

Svo var það einn dag að áhugi á matseld ruddist fram og skipaði sér í efsta sætið. Fyrst hélt ég að þetta liði hjá fljótlega en það gerði það ekki. Þá tók ég til við að rifja upp það sem uppáhalds rithöfundar og ævintýramenn höfðu sagt um mat. Það er kapítuli út af fyrir sig. Áhrifaríkur og skemmtilegur. Í framhaldi eignaðist ég ýmsar bækur um mat.

Þegar sú vikusálin (samanber Rousseau) er uppi, á ég til að lesa matreiðslubækur í rúminu. Það getur verið skemmtilegt og jafnvel haldið fyrir manni vöku. Það hefði mér þótt smánarlegt á fyrri árum enda seinþroska maður. En þær þurfa að vera góðar í rúmi.

Marglyndi er einkenni margra þekktra snillinga. Í þeim hópi eru rithöfundar, skáld, listmálarar, tónlistarmenn og ýmsir bóhemar. En marglyndi er einnig hluti af sálarlífi fólks sem hvorki eru skáld né listamenn. Hjá þeim er geðslagið sennilega kallað hringlandaháttur og stefnuleysi. Hvað um það. Við upplifum samt margoft dásamleg blæbrigði tilverunnar.

Í tilefni af Viku bókarinnar ákvað ég að nefna tvær bækur um mat, tengdar rithöfundum sem ég hef unnað af ástríðu í hálfa öld. Minnist þess með ánægju þegar ég las um Pílarkássuna í For Whom the Bells Tolls, eftir Hemingway, í annað sinn og naut þess ætíð síðan að þurrka sósuna upp af diskinum mínum með brauði eins og söguhetjan lýsti því svo listilega.

Varð mér úti um The Hemingway Cookbook, eftir Craig Boreth, fyrir nokkrum árum. Það er eins og að fara inn í skáldsögur Hemingways og hægt að lesa hana sem eina af þeim. Önnur bók eftir karlinn, sem margir hafa lesið og dáð og notið, er Parísarárabókin A Moveable Feast, Veisla í farangrinum, sem til er í frábærri þýðingu Halldórs Laxness.

Sú bók er full af frásögum af ótal listamönnum allra lista á framanverðri síðustu öld. Ef svo má segja. Og kynnist maður þeim einkar vel í frásögum Hemingways af heimsóknum til rithöfundarins Gertrude Stein í rue de Fleurus 27. Og hlutirnir leiða hver af öðrum.

Í framhaldi las ég The Autobiography of Alice B. Toklas, sem skrifuð er af Miss Stein. Í henni segir frá því að Miss Stein hafi unnið við skriftir en Miss Toklas séð um eldamennskuna. Því var óhjákvæmilegt að eignast bókina The Alice B. Toklas Cookbook, eftir Alice B. Toklas. Um þetta mætti hafa mörg orð. Bækur eru dásamlegir félagar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.