Ekki kaus ég Samfylkinguna vegna Evrópumálsins. Það er á hreinu. Og ekki kaus ég Samfylkinguna vegna þess að þar sé flest vænna manneskja. Það er líka á hreinu. Ég kaus Samfylkinguna einfaldlega vegna Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur manna mest og best heitið því að gæta hagsmuna „litla mannsins“ í þjóðfélaginu og er manna líklegust til að standa við það.
Það er sorglegt ef öll orka stjórnmálanna fer í þras um Evrópumálin á meðan Róm brennur. Ekki hef ég trú á því að allir sem kusu Samfylkinguna hafi kosið hana til að sækja um aðild. Og ekki hef ég trú á því að þeir sem kusu VG hafi kosið þau til að standa fast á móti aðild. Til þess veit almenningur allt of lítið um kosti og galla aðildar.
Ef kostir og gallar koma ekki í ljós nema að sótt sé um, þá á að sækja um. Síðan er hægt að kjósa um málið aftur og aftur, ef vill. Þetta ættu grjótkjaftar stjórnmálanna að geta sætt sig við og samið um og snúið sér að því hið bráðasta að slökkva eldana sem brenna. Þeir voru fyrst og fremst kosnir til þess.
Sammála. Ég trúi því ekki að þau fari að láta þetta stoppa að þau geti farið að hefjast handa við að bjarga því sem bjargað verður í málefnum landsmanna. Ég hef töluverða trú á að Steingrímur og Jóhanna vinni vel saman. (allavega þangað til annað kæmi í ljós) Kveðja.