Minning – Margrét Helgadóttir

Látin er í hárri elli fágæt kona. Margrét Helgadóttir frá Fellsenda í Þingvallasveit. Hún var fædd 8. febrúar 1915 og lést 14. apríl síðastliðinn. Vil ég minnast hennar með fáeinum fátæklegum orðum.

Margrét var lágvaxin kona og grönn. Hún hafði verið hjartasjúklingur um árabil. Sagði hún frá því í viðtali við Samhjálparblaðið 1988 hvernig hún nítján ára gömul upplifði köst þar sem „..stundum var eins og hjartað í mér ætlaði að springa, í önnur skipti stoppa. Hætta að slá. Þá varð ég oft svo hrædd um að ég væri að deyja. Ræddi þetta þó ekki við nokkurn mann.“

Margrét Helgadóttir
Margrét Helgadóttir

Margrét minnti á „brákaðan reyr“ eins og Biblían talar um hann og gefur jafnframt fyrirheit um að ekki verði brotinn. Þegar hún var á fertugsaldri kom heilög ritning inn í líf hennar. Í fyrrgreindu viðtali segir hún: „Eitt var það sem kom mér þægilega á óvart. Þegar ég opnaði Biblíuna í fyrsta sinn, alveg af hendingu, kom ég niður á orðin, „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“

Trúaðir einstaklingar eins og Margrét var eru fágætir. Á fyrri árum Hvítasunnuhreyfingarinnar var meira um þá. Því var líkast að sá Kristur sem þeir höfðu fundið væri heilagri og helgari en sá sem flestir þekktu. Og Margrét hafði þegið skjólið sem hann bauð henni: „Ég upplifði ekki neina sérstaka strauma, engin mikil tilfinningahvörf, ég bara trúði, vissi að þetta var rétt og satt og sál mín féll að því.“

Margrét gat verið kankvís og kaldhæðin. Hafði gjarnan tvíræða vísuparta á vörum. Þá var hún beinskeytt og sagði hreint út hvað henni fannst um hlutina. Lét samt aldrei mikið yfir sér. Hún klæddist einföldum fötum og ætlaðist ekki til neins fyrir sjálfa sig. Nægjusöm og trú lifði hún einföldu og fábreyttu lífi. Þá var hún kunn fyrir að leggja til heimilishjálp hjá fjölskyldum þar sem veikindi eða aðrir erfiðleikar steðjuðu að.

Hún var traustur vinur Samhjálpar Hvítasunnumanna og sótti samkomur í Þríbúðum í Hverfisgötu um áratuga skeið. Lét hún sér annt um starfið og styrkti það meðal annars með peningagjöfum af naumum tekjum sínum. Gjöfum sem nægðu fyrir ótal máltíðum handa skjólstæðingunum sem sóttu Kaffistofu Samhjálpar. Minnti Margrét þar á aðra biblíukonu sem gaf af skorti sínum og frá segir í ritningunum.

Á 25 ára afmælishátíð Samhjálpar, í febrúar 1998, var Margrét heiðruð ásamt nokkrum einstaklingum sem stutt höfðu starfið öðrum fremur. Þótti henni það afar óþægilegt og kvartaði mikið yfir tilstandinu. Henni féll ekki að vera í sviðsljósi.

Núna, að leiðarlokum, minnist ég hennar sem fágæts einstaklings, persónu sem var miklu stærri en hún virtist við fyrstu sýn. Nærvera hennar og vinátta var okkur Ástu mikils virði. Samhjálp Hvítasunnumanna á henni mikið að þakka og ber ég það þakklæti fram hér af einlægni og virðingu. Bið og Guð að blessa minningu fágætrar konu.

Útför hennar var gerð síðastliðinn föstudag.

Eitt andsvar við „Minning – Margrét Helgadóttir“

  1. Góð minningarorð, tek undir með þér, stóran persónuleika, persónuleika sem er. og þarf því ekki að sýnast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.