Vorið. Í loftinu er það. Það var mætt í morgun. Úti á stétt. Vorið. Andaði djúpt að mér blænum. Teigaði. Hélt niðri í mér. Fann kikkið. Sumir voru skrafhreifir. Konan sem tekur hjartalínuritið var í essinu sínu. Byrjaði með því að segja: „Komdu upp á…“
Vor í lofti. Vetur í þjóðmálum. Bólar ekki á þíðu. Landsfeður í leðjuslag. Almúginn andvarpar. Það þrengir að. Atvinnuleysi vex. Lífeyrissjóðir rýrna. Bætur skreppa saman. Verðlag hækkar.
Ekki nema allir vorið. Ekki þeir atvinnulausu. Ekki þeir auralausu. Ekki þeir allslausu. Ekki börnin: „Mamma, af hverju er ekkert til?“
Ormarnir á gullinu dreifa sjóðunum. Líkt og landabruggarar til sveita á fyrri tíð. Þeir grófu landann í jörð. Undir þúfur um alla jörð. Landastaðir varð viðurnefni í fagurri sveit mót sól. Ormarnir á gullinu. Blóðsugur þjóðar.
Ungur karl í fiskbúð bað um rauðsprettu. „Í tilefni vorsins,“ sagði hann. Öldungur með staf nefndi páskahret. Ungi karlinn brosti: „Ég elda hana á pönnu. Læt snarka í feitinni.“ Konan með barnavagninn las á verðmiða.
En landið er gott. Fólkið er gott. Vorið er gott.
Þeir sem stjórnuðu eru ekki góðir.
Þeir sem stjórna eru heldur ekki góðir.
Hvaða lit sem þeir velja á vindmyllurnar.
Konan með barnavagninn fór án þess að kaupa.