Sjálfstæðismenn fæla fólk frá flokknum þessa dagana. Af miklu afli. Framkoma þeirra í sölum Alþingis þessi dægrin hefur sérlega neikvæð áhrif á marga sem fylgjast með. Ekki bjóst ég við að þessi svokallaða „nýja kynslóð“ í flokknum myndi kynna sig með orðhengilshætti og sirkustilburðum eins og nú er gert.
Fremur átti ég von á að reynt yrði að laða að, menn sem kusu flokkinn trúverðuglega í fjörutíu ár en gáfust upp á honum á síðustu misserum. En það er greinilegt að nú er það aulahátturinn sem gildir. Það þótti ekki lýsa vönduðum persónuleika þegar Jón Bjarnason ásamt félögum ástundaði munnræpu í ræðustóli Alþingis um árið, daga og nætur.
Sjálfstæðismenn höfðu klára skoðun á slíkri hegðun þá, en iðka hana nú af ekki minni ákefð. Hegðun sem hefur nákvæmlega ekkert hagnýtt gildi og kemur þjóðinni sem hnípin situr í vanda, eftir handvömm stjórnmálamanna, ekkert við. Framkoma þeirra er innantóm yfirborðsmennska og það sem maður vildi síst sjá í fari Sjálfstæðismanna.
Málflutningur Birgis Ármannssonar, þessa dagana líkt og síðustu misseri eins og reyndar fleiri félaga hans síðustu misseri í ýmsum málum sem hann barðist fyrir, er áhrifamesti fráhrindingur Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Óneitanlega hafði ég gert mér vonir um að flokkurinn sýndi einhver myndug tilþrif sem yrðu til þess að heilla mig til sín aftur. En það virðist borin von. Því miður.
Á tímum sem þessum, þegar ótal áríðandi verkefni bíða úrlausnar, eru leikir með sápukúlur sóun á dýrmætum tíma.
Ætli stjórnarandstaða sé óþarft hlutverk?