Oft hef ég sagt að Biblían sé blessuð bók. Það mun ég og gera á meðan andinn heldur hús í líkama mínum. Og af hverju segi ég aftur og aftur að Biblían sé blessuð bók? Það er af því að hún er bókin sem sagði og segir mér af Kristi Jesú. Sveitamanninum frá Galíleu. Manninum sem helgaði líf sitt smáðu fólki, krömdu fólki og mállausu og gerðist eilífur talsmaður þess.
Hann gerðist talsmaður minn þegar ég átti engin orð yfir stöðu minni og skelfingu vegna sjálfsskaparvítis og fávisku. Hugstola og orðvana leitaði ég til fagfólks ýmissa sérfræðinga. Ekki dugðu doktorsgráðurnar til lausna þótt þeir skilgreindu flækjurnar. Hempuklæddir fóru undan í flæmingi, ræddu hrynjandi texta, fagnaðarerindi í rjúpuhreiðri eða átöldu ríkið fyrir vanefndir um steypu.
Þjáning mín óx því fremur en sefaðist. Hvert einasta sund virtist lokað og sérhver gata blind. Hvergi lausn. En sveitamaðurinn frá Nasaret, sem valið hafði sér að vera kallari þeirra sem engu hljóði komu upp, skarst í leikinn. Hann sem var „fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín.“
Hann sendi aðra sveitamenn í veg minn. Sveitamenn sem höfðu rýmt til í huga sínum og hjörtum og fengið honum bústað þar. Þeir reistu mig á fætur og föðmuðu mig og „bundu um sár mín og helltu í þau smyrslum“. Þeir buðu mér í hús sín, „slátruðu kálfi“ og veittu mér örlátlega og hvísluðu að mér orðum um meistara sinn.
Í hönd fóru dagar samræðna, rökræðna, töfrandi frásagna um kærleika og elsku, orð ritninganna og endurfæðingu: „Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs.“ Loks gat ég andvarpað: „Ég trúi, hjálpa vantrú minni.“ Þá féll hamurinn. Ótal margt og dýrmætt gerðist innra með mér. Ritningin stóð við sín orð. Biblían. Í dag er dagurinn hennar. Hún er blessuð bók.