Ríkasta þjóð í heimi. Húrra, húrra, húrra.

Það var svosem fyrirséð að þegar kæmi að því að reyna að bæta hag hinna verst settu þjóðfélagsþegna þá myndu grátkórarnir taka að þjálfa að nýju og reyna að syngja kröfurnar í kaf. Eða kveða þær í kaf. Já, og skjóta þær í kaf ef mögulegt væri. Þetta er eitt af því sem við eldri verkamennirnir höfum hlustað á í meira en hálfa öld, eins og nefnt er í síðasta pistli.

Það heyrðist aldrei grátur, né samúðarorð falla með útgjöldum ríkisins af völdum hækkana til best settu borgaranna, svo sem eftirlauna þingmanna, launahækkana seðlabankastjóra og allra annarra kerfiskarla og kvenna, sem síðan verja laun sín og stöðu með því að halda afkomu „lýðsins“ í lágmarki. En nú, allt í einu, syngja dúettar, kvartettar og kórar sama harmaljóðið.
„Þetta er ekki hægt. Þetta er ekki hægt. Þetta er ekki hægt.“

Þær verða alltaf skýrari línurnar á milli íslensku þjóðanna tveggja sem búa í landinu. Og því miður er ekki annað sjá en að þeir sem farið hafa með völdin undanfarna áratugi hafi markvisst greitt götu þeirrar þróunar. Það er ekki að heyra á nýjum ráðherrum, né gömlum, að þeir hafi neinn sérstakan áhuga á að breyta henni. Því miður. Enda verða söngvarar í kór að gæta þess að syngja sama lagið.

„Ríkasta þjóð í heimi,“ var hrópað um víðan völl fyrir skemmstu. Húrra, húrra, húrra. Engin fátækt til á landi hins mikla auðs, margítrekaði Hannes á Horninu yngri, og bætti við að í besta falli þá væru ekkert fleiri fátæklingar hér á landi en í löndunum sem við „miðum okkur við“. En samt erum við ríkari en allar þjóðir sem við miðum okkur við.

Það verður varla flokkað undir annað en kveifarhátt og óheiðarleika af ráðamönnum að neita að jafna kjörin svo að almenningur geti unað sæmilega við sinn hag. Og að það verði búið þannig að fátækasta fólkinu að það geti keypt í matinn fyrir sig og börnin sín, líka í síðustu viku hvers mánaðar.

Eitt andsvar við „Ríkasta þjóð í heimi. Húrra, húrra, húrra.“

  1. Sæll og gleðilegt ár og þakka þér fyrir hlíleg orð til mín og kveðjur og fyrir liðin ár. Já það er hárrétt að það er alveg sama hverjir komast til valda það virðist vera að völd og peningar ráði öllu og minna hugsað um hvernig fólki líður. Það er ekki að sjá að ráðamenn viti hvað kærleikur merkir. held hann hafi ekki bara verið fyrir auðvaldið og ráðamenn. Kærar kveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.