Helgi og Hannes – tár

Það er ekki oft sem félagarnir klæðast öðru en sínum hversdagslegu fötum. Fötum sem hafa dugað þeim um langt árabil og lagað sig að líkama þeirra og persónu á undraverðan hátt. Þegar Helgi kom að bekknum sat Hannes þar fyrir í svörtum fötum og svörtum glansandi skóm.

Helgi: Þú ert í svörtu?
Hannes: Jarðarför.
Helgi: Einhver nákominn?
Hannes: Nei.
Helgi: Hvað þá?
Hannes: Góður karl.
Helgi: Góður karl?
Hannes: Já. Einstakur maður.

Helgi: Syrgirðu hann?
Hannes: Þekkti hann fyrir fimmtíu árum.
Helgi: Og ekkert síðan?
Hannes: Eiginlega ekki.
Helgi: Það er merkilegt.
Hannes: Það er ekkert merkilegt.

Helgi horfir rannsakandi á vin sinn. Hannes snýr sér undan, sýgur upp í nefið og strýkur um það með handarbakinu. Það blikar tár í augnkróki. Helgi þegir um hríð og veit ekki alveg hvernig hann á að bregðast við.

Helgi: Ertu klökkur?
Hannes: Það kemur ósjálfrátt.
Helgi: Viltu tala um það?
Hannes: Tala um hvað?
Helgi: Þann látna.
Hannes: Það er ekki auðvelt.
Helgi: Auðvitað ekki.

Hannes: Ég, það kemur kökkur.
Helgi: Kökkur?
Hannes: Já, í hálsinn.
Helgi: Við getum hinkrað.
Hannes: Ég var sextán ára. Hafði lent í klandri. Átti hvergi heima.
Helgi: Er það hægt á Íslandi þegar maður er sextán ára?
Hannes: Það er allt hægt á Íslandi. Frændi minn rak mig út.
Helgi: Varstu vandræðagepill?
Hannes: Ég var ráðvilltur og ofvirkur. Einstæðingur.

Helgi: Hvernig klandri lentirðu í?
Hannes: Ég fékk risastóra sekt og fangelsi til vara.
Helgi: Sextán ára?
Hannes: Já, sextán ára.
Helgi: Það hljómar ekki vel.
Hannes: Þá kom þessi maður og borgaði sektina.
Helgi: Borgaði hann sektina?
Hannes: Já.
Helgi: Og þú þekktir hann ekki neitt?
Hannes: Nei.

Helgi: Þú grætur.
Hannes: Já. Veistu hvað hann sagði?
Helgi: Nei. Hvað sagði hann?
Hannes: Hann sagði: „Taktu þig á strákur minn.“
Helgi: Sagði hann það, „Taktu þig á strákur minn?
Hannes: Já.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Ég tók mig á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.