Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík I

Við fórum tveir niður í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Ég A og ég B. Við tveir. Það er ég. Já, og þetta skrítna fyrirbæri sem stundum tekur yfir, sjálfsveran og vikusálin, svo vitnað sé í Rousseau sem talaði um tvennskonar lunderni sem skiptist reglulega á og hann kallaði vikusálirnar sínar. Og hann bætti við að önnur gerði vit hans sturlað en hin gerði sturlun hans vitra. En þó þannig að sturlunin væri vitinu yfirsterkari í báðum tilvikum.

Þeir hrífa mig oft þessir skringilegu karlar. Karlar eins og t.d. Rousseau. Hef stundum óskað þess að ég væri skrítnari en ég er. Öðruvísi skrítinn en ég er. Það er svo kryddlaust að vera meðaltalsskrítinn. Hvað um það. Í morgun ók ég bílnum. B sat við hliðina á mér. Og sagði mér til. Eins og þess þyrfti? Það er verst á gatnamótum þegar ágreiningur kemur upp um götuval. Þá nýt ég þess að hafa stýrið. Fengum stæði á Fríkirkjuvegi. Ég borgaði í mæli. Leiðin lá í Listasafn Íslands.

Við gerðum okkur von um að hafa kyrrð og frið. Því var ekki að heilsa á sunnudaginn var þegar við Ásta fórum þangað saman. Þess vegna fór ég aftur í dag og B tróð sér inn á mig. Eða vaknaði hann kannski inni í mér og fór út fyrir? Hann gerir það stundum. Fyrirvaralaust. Mættum sjö mínútum eftir opnun. Það var hljótt, utan skvaldur í starfskonum. Við B vorum einu gestirnir. Fyrsta myndin Svörtu sokkarnir. Konan var enn að fara í svörtu sokkana. Við settumst á bekkinn hljóðir. Nutum þess að horfa í kyrrð. Þegar Ásta, á sunnudaginn, sá Luxemborgargarðinn eftir Albert Marquet, leit hún á mig og sagði: „Þarna vorum við.“ Það var áttatíu árum seinna.

Nú mættu þeir okkur hver eftir annan Matisse, Valtad, Lhote og Renoir.
– Manstu eftir búttuðu konunum hans Renoir; spurði ég.
– Hvort ég man, sagði B.
– Og Díönu og konunum í baðinu, feitum og flottum?
– Hvort ég man, sagði B.
– Og litlu sirkusstelpunum og konunni með kjölturakkann í veislunni á bátnum og Blómatínslunni, bætti ég við. Hún er meistaraverk. Hann var meistari. Virkilegur meistari.
– Vissulega, alveg. Út í gegn, sagði B.

Við gengum um salinn. Fórum frá myndum og að þeim aftur. Barnfóstrurnar eftir Valtad toguðu okkur til sín aftur og aftur. Fjórar konur. Allar með smábörn í fanginu. Ein þeirra virtist gefa brjóst. Við gengum fjær. Myndin lifnaði. Spurning vaknar um mæðu kvenna. Birtan er fjær. Á bak við konurnar. — Allt í einu kom starfsmaður í salinn. Hann var með tveggja metra áltröppu og skellti henni á gólfið. Það glumdi í salnum. Og glumdi. Bergmálaði og glumdi. Andskotinn, sagði B. Ég sat á mér. Við fórum upp á efri hæð. Áttum þó eftir að komast að niðurstöðu um Barnfóstrurnar. Já, og Grímurnar.

Albert Marquet drottnar einn í sal þrjú. Þar eru tólf myndir eftir hann. Sennilega á hann fimmtán myndir á sýningunni. Salur þrjú er dásamlegur. Bókstaflega. Tólf myndir. Allar við vatn eða sjó. Hafnir, skip, segl og fólk. Fura í Algeirsborg sker sig úr. Hún er sterk, græn og makalaus. Mikil fura í forgrunni. Borg í fjarska, bleik, það grillir í hana milli barrnálanna, sjórinn blár vinstra megin. Svo er þarna mynd sem heitir Garðarnir í Pila. Víðmynd. Græn, tré, sjór, skip, skúta gul, segl hvít. Fólk buslar við ströndina. Sólin yfir. Kona stendur við girðingu og horfir út yfir. Hún er í forsælu. Já, eða skugga. Hún er áhorfandi. Kannski í skugga.

– Ég álít að hún sé í skugga, sagði B.
– Það er spurning, svaraði ég, ef hún er í skugga þá er hún döpur, – sé hún í forsælu, þá er hún í hvíld.
– Þetta er ægifín mynd, sagði B.
– Já. Ægifín. Meistaraverk, tók ég undir við hann og bætti við,
Albert Marquet. Sjór, land og loft í öllum myndunum í salnum. Og fólk.
Og ævintýralegir litir. B kom fast upp að mér.
– Þú hefur ekkert vit á þessu í rauninni, sagði hann.
– Það er rétt, svaraði ég.
– Hvað ertu þá að þykjast útskýra þetta fyrir mér?
– Ég er ekki að útskýra neitt fyrir þér, svaraði ég.
– Nóg talarðu.
– Við sjálfan mig já. Það eru ekki aðrir hér.
– Eru ekki aðrir hér? Ég er hér, sagði B, hvaða asni ertu?
– Þú, hver bað þig um að koma?
– Bað mig, þú veist vel að þú getur ekki verið einn, sagði B.
– Þú þarft samt ekki að vera alveg svona ofaní mér.
– Hvar á ég þá að vera?
– Á ská, þarna, nokkra metra, sagði ég.
– En þá ertu vanur að benda mér að koma nær og hlusta á þig.
– Er ég vanur því?
– Láttu mig vita það, sagði B með smá háði í röddinni.
– Og hvað með það?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.