Háskóli Íslands og spilakassarnir

Það má segja að allt beri að sama brunni í íslensku þjóðfélagi. Þeir sterkari mergsjúga þá veikari. Hvert sem litið er. Bankarnir taka til sín meiri vexti af daglegu amstri mannanna en nokkur nágrannaþjóð. Matvöruverslanir selja nauðsynjavörur á helmingi hærra verði en verslanir í nágrannalöndunum. Um lyfjaverslun er sama að segja.

Dæmi: Ágætur vinur heimsótti mig í gær. Hann var með ný gleraugu. Þau hafði hann keypt í Þýskalandi á síðasta ári á iskr. 3.000. Konan mín keypti gleraugu í gær í Kópavogi. Þau kostuðu iskr. 65.000.

Þegar bankarnir, verslunin, lyfjafyrirtækin og allir hinir sem koma því við, hafa krafið okkur, óbreytt fólk, um hlutdeild í tekjum okkar þá þarf ekki stóra buddu til geyma afganginn. Það má þó segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að hugga eldri borgara um síðustu áramót, ekki má gleyma því, og hækkaði minn hutur frá Tryggingarstofnun úr: Samtals til útborgunar kr. 17.197.- í: Samtals til útborgunar kr. 19.091.- Hækkun kr. 1.894-.
Og gleðihrollur um mig fer.

Auðvitað er fólk hætt að verða hissa á meðferðinni sem það hlýtur. Hún er einfaldlega saga mannsins í gegnum aldirnar. Þeir sterkari mergsjúga þá veikari. Flestum er kunnug frásagan af því hvernig „ […] Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust og gerðu þeim lífið leitt […]“ fyrir 3300 árum, eins og lesa má í 1: Mósebók. Þá hefur verið og sagt um Neanderdalsmanninn að hann hafi dáið út, af því að hann hafði ekki viðskiptavit.

Það má auðvitað einnig álykta að á svæði því hafi aðrar manngerðir búið, manngerðir með viðskiptavit sem nægði til að mergsjúga Neanderdalsmanninn, og sátu svo einar að fæðunni. Enn þann dag í dag er viðskiptavit afskaplega eftirsótt vit og fjálglegast um það rætt sem og afreksmenn þess í öllum fjölmiðlum landsins. Þá er og fyrir dómstólum háð mikil glíma þar sem takast á viðskiptavit og siðvit. Það verður lærdómsríkt að sjá hver ber sigur af hólmi þar.

Þrátt fyrir að ýmsar kenningar mikilla hugsuða og heimspekinga um skiptingu auðs, auð og arðrán, frjálshyggju og kommúnisma og hvað það nú allt saman heitir, þá er ekki að sjá að nein þeirra hafi, nema í orðum, náð að koma á stjórnmálalegu réttlæti sem gildir fyrir alla. Þeir einstaklingar sem þekktastir urðu af baráttu sinni fyrir jöfnuði, – og drápu í því augnamiði milljónir manna – urðu berir að því að á bak við slétt, barnslegt andlit þeirra leyndist óbeisluð þrá eftir alræðisvaldi.

Það var nú samt umræðan um spilakassa í Mjódd, á vegum Háskóla Íslands, sem varð hvati að þessum pistli. Það er skelfing dapurlegt að fylgjast með sérfræðingum háskólans brölta um í vilpunni og seilast eftir aurum einstaklinga sem ekki hlutu í erfðir þá staðfestu sem þarf til að verjast gráðugu áreiti fjármagnsins. Einhvern veginn hefur maður vonað að þekking, og forréttindin sem hún veitir, yki svo við réttlætiskennd menntaða fólksins að það reyndi að bæta hag vanbúinna einstaklinga, fremur en að nærast á þeim.

Og næst þegar ég horfi á rektor og deildarforseta, tignarlega í litskrúðugum kuflum sínum, afhenda nemendum prófskírteini á sviði í einhverri höllinni, þá ætla ég að – hugsa til þeirra fjölmörgu einstaklinga sem áttu hlut í fjármögnun reksturs skólans, blankir og bældir með grátstafinn í kverkunum hvern einasta dag, – og hlusta eftir því hvort prófessorarnir nefni þá í þakkarræðum sínum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.