Með hrút í klofinu

Það var réttað í Þverárrétt í gær. Allstórt safn var í nátthaganum, tólf til fimmtán þúsund fjár. Rætt var um að eitthvað hlyti að hafa orðið eftir á heiðinni, þar sem mikil þoka og slæmt skyggni hafði lagst yfir leitarsvæðin. Þá var og mættur fjöldi fólks að vanda, bændur og bændafólk til að heimta sitt fé og fjöldinn allur af öðru fólki og mikið af börnum. Þrjár skólarútur höfðu mætt við Varmalandsskóla, tómar. Einn eða tveir komu í réttirnar til að sýna nýju jeppana sína.

Tvær fánastangir eru yfir réttarhliðinu. Á þeim er flaggað á réttardögum. Á annarri stönginni var flaggað í hálfa stöng. Það var við hæfi. Smellið á myndirnar.

Ásmundur frá Högnastöðum lést fáum dögum fyrir réttirnar. Hann hafði verið réttarstjóri og markasérfræðingur í Þverárrétt allt sitt líf. Rödd hans, úrskurðir og köll voru eins og hjartsláttur réttanna. Hann var kankvís og knár og það er mikill sjónarsviptir að honum.

En drátturinn gekk vel fyrir sig. Allir önnum kafnir við að lesa á mörk og merki og draga í dilka. Karlar, konur og börn með kindur í klofinu. Klof eru mjög nytsöm á réttardögum.

Það er ánægjulegt að fá að fylgjast með erlinum þótt maður hafi á tilfinningunni að stundum flækist maður fyrir. Ég reyndi að gera mig mjóan!!

Stöku eldri borgari gaf sig á tal við mig. „Manstu eftir mér?“ spurði einn. Og svo var spjallað um löngu liðna daga; bændur, smalamennskur, hesta og réttarböll. Einnig horfna vini og konur. „Manstu?“ „Hvort ég man.“

– Í huganum rifjaði ég upp haustið 1957, þegar Ásta mín kom í réttirnar með Hlöðutúnsfólkinu, fimmtán ára fljóðið, og ég missti vitið þegar ég sá hana og kindurnar urðu helmingi léttari og ég tók að draga fyrir ýmsa bæi. Þvílíkt tilfinningaofviðri. –

Í gær hengdi ég mig á Sámsstaðafólkið. Eins og síðustu haust. Það hefur verið örlátt á vinsemd við mig og ekki amast við nærveru minni. Hef tekið mér stöðu inni í dilknum þess og þóst vera til gagns. Veit að það eru bara látalæti en ber mig vel. Þakklátur.

Ásta mín fór svo áleiðis til Vilníus í morgun. Við vöknuðum klukkan þrjú í nótt og settumst við Horngluggann og drukkum saman kaffið okkar. Það var dimmt. Hún fór á tvö hundruð manna nordiska ráðstefnu um barnaverndarmál. Héðan fóru níu konur og verða fram á sunnudag. Þegar hún var farin hengdi ég jakkann minn á herðatré inn í fataskáp. Ætli ég verði ekki hjá honum þessa daga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.