Við sátum saman á pallinum framan við Litlatré á sunnudaginn var. Það var loka samvera eftir velheppnað árlegt vísnakvöld, sem svo er nefnt, en hluti fjölskyldunnar kemur saman eina helgi síðsumars, leigir sér sumarhús í grennd og gleðst í mat og nærveru í tvo sólarhringa. Um hádegisbil á sunnudegi hittast allir í skilnaðarsamveru við Litlatré áður en haldið er heim á leið. Svo var einnig nú.
Veðrið var hið ákjósanlegasta, stífur norðan vindstrengur, hiti 12 gráður og heiðskírt. Fullkomið skjól á pallinum sunnan undir húsinu. Frásagnargleðin var í góðu standi og lögðu allir til málanna yfir kaffi og heimabakaðri „grýlu“. Á myndinni eru Gunný, Kristinn, Ráðhildur, Brynjólfur og Ásta. Smellið á myndina.
Einhver leit á úrið sitt og greip ég þá orðið og rifjaði upp atvik frá fyrri árum:
„Ég fékk úr í fermingargjöf. Það var uppgert. Við vorum fátækt fólk. Pabbi hafði keypt það hjá Sigurjóni úrsmiði á Laugaveginum. Ég var glaður yfir úrinu. Á þeim árum áttu fáir úr. Um vorið var ég sendur í sveit að Útey við Laugarvatn. Kunningi pabba leigði jörðina af Hvannbergsfólkinu og bjó þar nokkru búi. Þeim samdist um sumarveru mína þar. Ég var þrettán ára.
Eitt sinn um vorið ræddi bóndinn um að fara þyrfti með naut sem hann hafði haft um hríð og koma því til annarra nauta sem voru í girðingu upp við Laugarvatnsskóla í grennd við vegamótin að Lyngdalsheiði. Tuddinn var farinn að bölva og krafsa í jörðina og höfðum við beyg af honum. Bóndinn ákvað að ég skyldi fara með tuddann. Það leist mér illa á. Hjartslátturinn í mér margfaldaðist og ég varð þurr í kverkunum. Ekki hirti bóndinn um það.
Lét hann mig sækja hest, leggja á hann hnakk og fara á bak. Síðan setti hann múl á tuddann og rétti mér tauminn. Griðungurinn reif sig lausan samstundis. Þá hnýtti bóndinn tauminn í stertinn á hestinum. Ekki gekk það betur. Nautið sveiflaði hestinum til og frá og fór hann í allar áttir nema í átt að Laugarvatnsskóla. Gekk þetta svona um allnokkra hríð og var bóndinn orðinn reiður. Hann ruddi úr sér öllum blótsyrðum íslenskrar tungu og tvinnaði þau saman í ótrúlega litríkan og þykkan dúk. Loks ákvað hann að teyma hestinn sjálfur og skyldi ég reka á eftir bola.
Við fórum svo af stað vestur með vatninu. Þar voru mýrar og flákar til að byrja með. Einn eða tveir menn við vatnið veiddu á stöng. Ferðin tók talsverðan tíma því nautið þvældi okkur afleiðis hvað eftir annað. En þetta tókst um síðir. Þegar við höfðum komið bolanum í girðinguna og lokað hliðinu og séð nautin sem fyrir voru koma fnæsandi aðvífandi, spurði bóndinn mig hvað klukkan væri. Þá sá ég að úrið hafði týnst á leiðinni. Það var sárt.
Við reyndum að fara í slóð okkar til baka en fundum ekkert. Og stundum fór ég einn og reyndi að finna úrið. Sem ekki tókst. Sumarveru minni í Útey lauk svo skyndilega á miðju sumri þegar mér var hrint í hverinn þar sem tau var þvegið. Það var óviljaverk og er önnur saga.
Um veturinn eftir kom pabbi heim úr vinnu einn daginn. Hann virtist búa yfir leyndarmáli. Rétti hann mér lítinn pakka og sagði mildilega: „Þetta er til þín.“ Og þarna var nú úrið mitt komið. Fægt og flott. Saga þess var sú að stangveiðimaður við vatnið hafði séð glitta á það í flákanum, þegar hann var á heimleið í dagslok. Tók hann það með sér og heimsótti Sigurjón úrsmið á Laugaveginum, þar hittust menn oft, og spurði hvort úrið væri nothæft. Þegar Sigurjón opnaði það sá hann í því merki sitt og dagsetningu og þekkti gripinn. Gerði hann úrið upp og afhenti pabba það sem síðan færði mér það. Það var gleðistund.“