Ný bók

Ásta gaf mér bók í gær. Ákaflega fallega og yndislega bók. Það má heita að ég hafi haldið á henni síðan. Þ.e. bókinni. Strokið hana, flett henni og lesið og skoðað. Þetta er sérlega smekkleg bók, fallega unnin, fallega hönnuð og útlitið í góðu samræmi við innihaldið, vísar til dýptar, litar og gróðurs hafsins. Stafsetningarorðabókin heitir hún og er gefin út af Íslenskri málnefnd og JVP útgáfu. 736 blaðsíður. Verð kr. 6.980.

Það er hægt að halda bókinni uppi við brjóst sitt eins og ástvini, enda geymir hún móðurmálið og vísar veginn um króka þess. Þögul lotning er sú tilfinning sem maður fær við lestur hennar, aðdáun á fólkinu sem að henni stendur og virðing fyrir öllum þeim fundum sem hljóta að hafa verið haldnir um ákvarðanatökur. Mikil vinna unnin í kyrrþey lýsir ást verkamannanna á móðurmálinu, tungumáli þjóðar þeirra og einlægri löngun til að leiðbeina skemmra komnum um notkun þessa undursamlega tækis sem tungumál er.

Vert er að leiða hugann að því hvernig mennirnir færu að hefðu þeir ekki tungumál, orð, til að tjá sig með og tengjast. Læt ég gleði mína yfir bókinni í ljós með pistli þessum og auðsýni þakklæti mitt. Og faðma Ástu innilega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.