Hún er alltaf að hlaupa. Og hún er alltaf að sigra. Eldri borgarar fá sáran hlaupasting af því einu að heyra hana lýsa hlaupunum sínum. Hún tók síðast þátt í Brúarhlaupinu á Selfossi. Hljóp 10 kílómetra í flokki kvenna 19 ára og yngri. Hún var fyrst í mark. Hljóp á 53:49. Hún er aðeins ellefu ára. Heitir Kristín Lív Jónsdóttir.
Mamma hennar hleypur einnig. Hún heitir Marina Svabo Ólason. Hún var með í Brúarhlaupinu og varð númer tvö í flokki 40 til 49 ára. Ég stend á öndinni við fregnir af svona hlaupurum. Segi það satt. En dáist samt að fólkinu. Hljóðlega. Pabbinn er í Grænlandi. Jón Gils Ólason. Vinnur þar við virkjanagerð. Það er að sjálfsögðu einnig mikil og erfið íþrótt. Virkjun í Grænlandi. Veltu því fyrir þér.
Það eru ekki margir hlaupalega vaxnir í föðurætt stúlkunnar. Sei, sei, nei.
Við það er ekki ráðið. Greinilegt er að mikil baráttukona er á ferðinni og það fylgja þessum pistli hamingjuóskir, einlæg aðdáun og kveðjur til Grænlands. Ef tilraunin heppnast þá er mynd af hlaupadrottningunni hér