Hlaupadrottning í fjölskyldunni

Hún er alltaf að hlaupa. Og hún er alltaf að sigra. Eldri borgarar fá sáran hlaupasting af því einu að heyra hana lýsa hlaupunum sínum. Hún tók síðast þátt í Brúarhlaupinu á Selfossi. Hljóp 10 kílómetra í flokki kvenna 19 ára og yngri. Hún var fyrst í mark. Hljóp á 53:49. Hún er aðeins ellefu ára. Heitir Kristín Lív Jónsdóttir.

Mamma hennar hleypur einnig. Hún heitir Marina Svabo Ólason. Hún var með í Brúarhlaupinu og varð númer tvö í flokki 40 til 49 ára. Ég stend á öndinni við fregnir af svona hlaupurum. Segi það satt. En dáist samt að fólkinu. Hljóðlega. Pabbinn er í Grænlandi. Jón Gils Ólason. Vinnur þar við virkjanagerð. Það er að sjálfsögðu einnig mikil og erfið íþrótt. Virkjun í Grænlandi. Veltu því fyrir þér.

Það eru ekki margir hlaupalega vaxnir í föðurætt stúlkunnar. Sei, sei, nei.
Við það er ekki ráðið. Greinilegt er að mikil baráttukona er á ferðinni og það fylgja þessum pistli hamingjuóskir, einlæg aðdáun og kveðjur til Grænlands. Ef tilraunin heppnast þá er mynd af hlaupadrottningunni hér

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.