Helgi og Hannes – tryggingaraunir

Fjöldi útlendinga streymir um borð í hvalaskoðunarskipin. Erfitt er um bílastæði og hengja eigendur bílanna þá þvers og kruss á gangbrautir og svæði sem ætluð eru til annarra nota. Félagarnir Helgi og Hannes sitja á bekknum við bugtina og fylgjast með umferðinni.

Helgi: Hvernig fór svo þetta tryggingamál sem þú nefndir í fyrradag.
Hannes: Það fór svo sem engan veginn.
Helgi: Hvað felst í því?
Hannes: Þau hættu við.
Helgi: Hættu þau við að tryggja?
Hannes: Já.
Helgi: Hvað olli?
Hannes: Eitt af þessum loðnu ákvæðum.
Helgi: Hvernig þá?

Hannes gaf sér dágóða stund til að skipuleggja frásöguna. Horfði út yfir höfnina og fylgdist með hvalaskoðunarskipi sigla mjúklega frá bryggju.

Hannes: Þau ætluðu að tryggja fyrir hálfa milljón.
Helgi: Nú já.
Hannes: Svo fóru þau að lesa skilmálana.
Helgi: Og…?
Hannes: Þar stóð að hlutirnir mundu afskrifast um tuttugu prósent á ári.
Helgi: Tuttugu prósent?
Hannes: Já. Tuttugu prósent.
Helgi: Og er þá allt orðið verðlaust eftir fimm ár.
Hannes: Nei. Það stöðvast við sjötíu prósent.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Svo er sjálfsábyrgð
Helgi: Sjálfsábyrgð?
Hannes: Já, já. Svokölluð eigin áhætta.
Helgi: Og hvað er þá eftir handa þeim?
Hannes: Hvað sýnist þér?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.