Þrír dagar í París IV

„Hver sem í æsku átti því láni að fagna að ílendast í París um skeið, hann mun sanna að hvar sem leiðir liggja síðan er París í för með honum einsog veisla í farangrinum.“ Þessi orð eru skráð á titilsíðu bókarinnar Veisla í farangrinum og sögð eftir Hemingway í bréfi til vinar. Bókin hefur orðið mörgum Íslendingum sérlegt ánægjuefni og einskonar leiðsögubók um París. Það var hún okkur einnig og undir áhrifum hennar eyddum við þessum dögum.

Skömmu síðar brá Ásta sér inn í útisímaklefa á St. Michel skammt fyrir ofan torgið. Mannfjöldinn var verulegur. Það var regnúði og hlýtt og það var kvöld. Bílar óku með ljósum og ljósin spegluðust í blautu malbikinu. Einstaka laufblað, gult eða brúnt, losnaði af trjágrein og sveif ljúflega til jarðar. Ég gekk að næsta bekk, sem var nær fullsetinn.
„Pardon,“ sagði ég og náungi gerði sig mjóan svo að ég fengi rými. „Pardon,“ sagði ég aftur.
„I´m sorry, I dont speak French,“ sagði maðurinn sem gert hafði sig mjóan og hliðrað til.
„That´s OK, that´s Ok, I only have twelwe words myself,“ sagði ég.
Hann hló við og sagði á ensku: „Það var skemmtilegt. Hvaða mál talar þú?“
„Íslensku.“
„Já, Ísland, Reykjavík?“
„Einmitt,“ sagði ég „veistu hvar hún er?“
„Já, og Íslendingar eru tvöhundruð og fimmtíu þúsund?“
„Bravó, bravó,“ sagði ég, „hvaðan er svona menntaður maður kominn?“
„Suður Afríku, Cape Town.“
„Það er dálítið langt í burtu,“ sagði ég.
„Já, vissulega er það. Við höfum ferðast á landi alla leiðina og skoðað allar borgir og alla bæi sem við höfum komist í tæri við. Erum orðin dauðuppgefin og yfirfull af að sjá og taka á móti. Stefnum nú til Englands og síðan heim.“
„Mikið ferðalag,“ sagði ég.
„Alltof mikið ferðalag,“ sagði hann og tók upp kort af París. Bætti síðan við: „Getur þú sagt mér hvar við erum stödd?“
„Ekkert mál, my friend. St. Michel, nákvæmlega hérna,“ sagði ég og benti honum.
„Oh, thank you, thank you,“ sagði hann og bætti við, „ have you been here along time?“
„Only two days, my friend, two wonderful days.“

Ásta kom nú út úr símaklefanum, eitt sólskinsbros eftir að hafa talað við börnin sín heima á Fróni. Hún tók ekki eftir mér þar sem ég sat á bekknum svo að ég varð að hlaupa til að missa ekki af henni. Hvíti Afríkumaðurinn spurði vingjarnlega um leið og ég kvaddi hann með handabandi:
„What are you doing in Paris, if I may ask?“
„Feel the atmosphere, feel the atmosphere. God bless you sir.“

Ferð okkar Ástu lá næst niður St. Michel: „og við fundum góða kaffistofu á Place St. Michel. Fremst á Ile de la Cite fyrir neðan Pont Neuf þar sem eirlíkneskið var af Hinriki fjórða, þar endaði eyjan í oddi eins og hvass bógur á skipi og þar var skemmtigarður fast við ána og þar stóðu kastaníutré, mikil og laufrík. Tveir menn voru að veiða þar á stöng.“

Útsýnisbátar á Signu
Útsýnisbátar á Signu

Útsýnisbátar eiga þarna uppsátur og einn þeirra var að leggja upp í ferð þegar okkur bar að og við stukkum um borð. Að lokinni bátsferð þegar við gengum inn St. Michel, fyrir endann á rue de la Huchette barst okkur til eyrna kunnuglegur tvísöngur. Við gengum á hljóðið.

And here´s to you Mrs. Robinson
Jesus loves you more than you will know, wo, wo, wo,
God bless you please Mrs. Robinson
Heaven holds a place for those who pray,
hey, hey, hey…

Eitt til tvö hundruð manns stóðu í hring umhverfis tvo pilta sem léku á gítara og sungu af innlifun. Þeir gerðu sér far um að líkjast höfundum lags og texta, Simon og Garfunkel, alvörugefnir og einlægir. Þeim tókst vel upp. Áhorfendur klöppuðu þeim lof í lófa og létu gelði sína óspart í ljós. Við Ásta mjökuðum okkur inn í mannþröngina og blönduðumst stemningunni.

I´m sitting in the railroadstation,
got a ticket for my destination…
…for að poet and a one man band…
…I need someone to comfort me…
Homeward bound, I wish I was…

Þögn ríkti nú á meðal áhorfenda. Stemningin var hrærandi og full af ástúð. Einstaka konu vöknaði um auga. Ásta læddi hendi sinni í mína og við hlustuðum á nokkur lög og tókum þátt í þessari útiveislu tilfinninganna sem endaði með laginu alkunna:

The moive´s over, its four o´clock
and we´er in trouble deep
Wake up, little Susie, wake op.

Peningum var kastað í opna gítarkassa sem lágu á gangstéttinni og fólk tók að dreifast. Söngvararnir hneigðu sig og brostu og þökkuðu fyrir sig:
„Merci, merci monsieur, merci madame, merci mademoiselle.“

Komir þú svangur inn í St. Severin, þá verður of mikið munnvatn fljótt vandamál þitt. Gatan öll, beggja vegna og enda á milli er eiginlega eitt allsherjar matsöluhús. Þetta gildir einnig um privas og Huchette. Þú ráfar um hverfið og lest á hvert einasta „table d´hote“. Það undirstrikast að þú lest ekki grísku og naumast frönsku og hefir því ekki hugmynd um hvað stendur á spjöldunum, nema verðið og það er ótrúlega lágt. Hundruð manna, karla og kvenna, eru í samskonar erindum og þú, að ráfa um og skoiða, glorsoltin í leit að einhverju sem það langar meira í en annað, en skilur ekki það sem á spjöldunum stendur. Sumstaðar er opinn gluggi fram á götuna og söluborð sem selt er yfir. Víða var kjötsúla á lóðréttum teini, kebab, sem snýst upp við glóðarofn sem steikir ysta lagið og skorið er af því. Lyktin er mögnuð og þig langar mest að kaupa kíló í bréfpoka.

„No, no kilos, just meat,“ sagði afgreiðslufólkið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.