Þrír dagar í París I

Í framhald af pistli gærdagsins þar sem ég nefndi ferð okkar Ástu til Parísar fyrir tæpum tuttugu árum, fletti ég upp í gömlum gögnum um ferðina. Í framhaldi ákvað ég að endurbirta búta úr ferðasögunni okkur Ástu til upprifjunar og öðrum til fróðleiks og vonandi nokkurrar ánægju. Birtist fyrsti pistillinn í dag. Þá er stefnt að því að koma upp myndasafni sem gerir kleift að skoða myndir frá ýmsum tækifærum.

Tvennskonar orð fer af París og augljóst er að tvo ólíka hópa þarf til að standa að þeim orðum. Við lestur margra þekktra bóka og einnig margra frábærra, les maður það um París að hún hafi orðið mörgum sögumönnum „Borgin okkar“. Annar hópurinn, frábærir frásagnamenn og þátttakendur í hverskonar innan um fólk tilveru, deildu með lesendum upplifun sinni á þann hátt, að ekki varð hjá því komist að óska sér þess að mega einhvern tíma á fátæklegri ævi ganga um þær götur sem önnur eins gleði og önnur eins sorg hafði farið um í gegnum tíðina. Þvílík breiðstræti og þvílík torg og þvílíkt mannhaf.

Hinn hópurinn sem sótti París heim, kom ekki auga á neitt nema neikvæða hluti, hafði allt á hornum sér, sá illa anda og grýlur við hvert fótmál og virtist stein gleyma því að París er full af fólki, fólki sem þráir og vonar, kvíðir og elskar, fæðist og deyr, lifandi fólki sem öllum mönnum ber að virða og þjóna.

Við áttum þess kost, hjónin, eitt haust fyrir allmörgum misserum að vera á röltinu í París í þrjá daga. Daga þessa höfðum við til að fjarlægjast streitu og eril sem hafði vaxið yfir höfuð okkar og það var svo ríkulega ánægjulegt, þótt við ástunduðum einföldustu hegðun í stíl við sálir okkar. Ásta hafði oft sagt: „París er okkar borg pabbi, París er okkar borg,“ þegar borgina bar á góma og við vorum ákveðin í að lifa okkur inn í hana þessa fáu daga og slaka á og reyna að komast inn í andrúmsloftið.

Við fórum af stað í fyrstu gönguferðina frjálslegar klædd en við mundum nokkurn tíma gera heima á Fróni, og frjálslegri í fasi. Þegar við komum að Sorbonne beygði Ásta sig og klappaði á hússökkulinn og sagði: „Hér lærði Vigdís.“ Síðan rétti hún úr sér og bætti við: „Bonjour París, bonjour allt sem lifir, bonsjour gamli minn,“ og rak mér rembingskoss.

Í hverju fótmáli var eitthvað nýtt að sjá og við héldumst í hendur og skoðuðum það. Mannfjöldann, allskyns karla og allskyns konur í allskyns litum, sem gekk fram og aftur um göturnar, sumir í flýti en aðrir ekki, en umfram allt fjöldi af lifandi fólki, mannhaf, sem streymdi eins og iðandi fljót. Og við fórum út í fljótið og létum berast með straumnum, orðfá, undrandi og heilluð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.