Þinn harmur og minn

Hin meiri skáld yrkja stundum á þann veg, svo listilega, að lesandanum getur fundist hann sé sjálfur að tjá sig. Þó kannski ekki beint að tala, heldur fremur eins og leikið sé á strengi tilfinninga hans. En allir bera tilfinningar. Stundum þegar eitt svið þeirra stígur fram fyrir önnur, – og mönnum getur liðið eins og hljóðfæri sem þarfnast hljóðfæraleikara, eða huggara – er svo elskulegt að geta lesið ljóð skálda sem strjúka yfir strengina og vekja hljóminn sem þrýstir á um hljómun.

Bjartar nætur Stefáns frá Hvítadal er eitt af þessum ljóðum. Hann yrkir um vorið og segir í síðari hluta fyrsta erindis:

—–
Ég þráði vorið ljóst og leynt,
og langa biðin þungt mér sveið.
Ó, vor! mér fannst þá vikaseint
og víða töf á þinni leið.

Síðar lýsir hann áhrifum hins langa vetrar á sál sína og segir í þriðja erindi:

Í vetur nóttin mæddi mig,
er mjöllin jók sitt hvíta lín.
En kæra vor, ég þráði þig,
og það var eina líknin mín.
Er kveldin urðu leið og löng,
ég lifði mest á draum um þig.
—–

Skáldið Stefán frá Hvítadal upplifir um þessa björtu nótt útrás fyrir tilfinningar sínar, „Af söngvaefni er sál mín full…“ segir hann. Nóttin er stórkostleg. Með bikar í hendi vakir hann einn og nýtur næturbirtunnar. Undir morgun segir hann svo:

Á meðan blundar svefnþung sveit,
ég sæki yngsta hestinn minn.
Á hann skal verða hætt og treyst.
Ég hnakkinn minn á folann legg.
…..

Tilfinning Stefáns fyrir vetri og vori minnir á mannleg samskipti. Í þeim getur gætt kulda vetrarins sem og yls vorsins. Vorsins sem vekur von um hlýnun. Veðurlagið á landinu okkar þennan maímánuð minnir á að ekki er alltaf hægt að treysta á hlýnun og viðkvæmur gróður getur verið í hættu.

Víst gæti það hjálpað að eiga ungan fák og gera líkt og skáldin þegar þeim finnst þröngt um sig, eins og Einar Benediktsson orðar það: „Það er stormur og frelsi í faxins hvin, / sem fellir af brjóstinu dægursins ok…“ Og síðar: „Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.