Borgarhátíð

Borgarhátíðir einkennast af miklum mannfjölda. Fólk streymir um göturnar syngjandi, hlægjandi og fagnandi. Fagnaðarstemningin hrífur alla og hópsálin fyllist af sælukennd og ærslum. Allt í einu heyrist af þessum sérkennilega náunga. Hann sé að koma á hátíðina til að taka þátt. Og mannfjöldinn snýr sér að honum. Skemmtilegt að fá tilbreytingu. Syngjandi og sveiflandi greinum fer fólkið á móti honum.

Maðurinn var sérkennilegur. Víst er um það. Þungur harmur hvíldi yfir andliti hans. Það segir aldrei frá því að hann hafi brosað eða hlegið. Segir á einum stað að hann hafi grátið. Yfir fólki sem átti bágt. Hann hafði farið um sveitir og þorp og lagt sig fram um að hitta þá sem þjáðust. Óvenjuleg útgeislun stafaði frá honum. Orð hans, fá en mögnuð, þóttu búa yfir fegurð og hrynjandi.

Orð hans eru svo yndisleg, sagði einn, sem allt í einu var farinn að sjá skírt það sem áður hafði verið í þoku. Maðurinn hafði horft í augu hans og síðan lagt hendi yfir þau. „Hósíanna“ hrópaði mannfjöldinn, „Hósíanna,“ þegar maðurinn kom inn um hliðið. Allir fögnuðu honum. Af miklum krafti. „Hósíanna.“ Þótt enginn skildi för mannsins. Hann einn vissi að hann fór til aftöku. Hógvær og mildur. En ráðmennirnir fylltust afbrýðisemi. Og gnístu tönnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.