Mögnuð vika

Hún er mögnuð þessi vika. Mögnuð fyrir páskaeggjaframleiðendur. Mögnuð fyrir verslun með gjafir til ferminga. Og mat. Þá er hún mögnuð fyrir fátækt fólk sem á ekki fyrir mat. Það les á pakkana í hillum verslana. Leggur frá sér þá dýrari og velur ódýrari. Eða sleppir þeim. Þetta sést í verslunum. Eldri borgarar og ungar einstæðar mæður. Og börnin þeirra horfa með sársauka á miljónir páskaeggja. Vita af reynslu að þau fá bara númer eitt eða tvö.

Vikan er einnig mögnuð fyrir þá sem lesa heilaga texta. Lesa undraverð orð af undursamlegum anda sem var í upphafi. Í Orðinu. Hjá Guði. Mannelskandi andi. Allra tíma. Sem umlykur og elskar. Texti allra tíma. Orð allra tíma. Í þúsunda ára sögu mannkyns. Vikan er því mögnuð fyrir þá sem heyra hugsun orðanna. Orðsins, sem áætlað var að deyða. Þurrka út. Orðsins sem dó en lifnaði aftur. Af því að það er ódauðlegt.

Hún er mögnuð þessi vika. Með öllum pálmagreinunum. Öllum hrópunum. Svikunum. Dóminum. Hrákunum. Edikinu. Blóðinu. Og Maríu frá Magdölum. Já, hún er mögnuð þessi vika og blessun þeim sem andinn hefur velþóknun á. Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.