Davíð Stefánsson er eitt af mínum ljúflingsskáldum. Drengur gladdist ég yfir ljóðum hans. Las enda sum þeirra aftur og aftur. Og les þau enn. Upplifi gjarnan svipuð áhrif og forðum og finn þau líða um innri manninn. Þrátt fyrir aldurinn. Minn. Orð hans falla svo haglega hvert að öðru, eins og listasmíð sem fær mann til að strjúka, ósjálfrátt, með fingurgómunum um samskeyti. Og í vefnaði orðanna leynist ósegjanlegur þráður og tilfinning.