Konan, sem kyndir hjarta mitt

Davíð Stefánsson er eitt af mínum ljúflingsskáldum. Drengur gladdist ég yfir ljóðum hans. Las enda sum þeirra aftur og aftur. Og les þau enn. Upplifi gjarnan svipuð áhrif og forðum og finn þau líða um innri manninn. Þrátt fyrir aldurinn. Minn. Orð hans falla svo haglega hvert að öðru, eins og listasmíð sem fær mann til að strjúka, ósjálfrátt, með fingurgómunum um samskeyti. Og í vefnaði orðanna leynist ósegjanlegur þráður og tilfinning.

Í morgun, eftir fremur hnökrótta nótt með andvökum og óróa, kom eitt ljóða Davíðs upp í huga minn. Konan sem kyndir ofninn minn. Þar segir:

Ég finn það gegnum svefninn,
að einhver læðist inn
með eldhúslampann sinn,
og veit, að það er konan,
sem kyndir ofninn minn,
….

Eftir meðtekna uppörvun í morgunsárinu, alúð og ljúflega hvatningu, breyttist nafn kvæðis Davíðs í huga mínum í nafn á óortu kvæði eftir sjálfan mig:

Konan, sem kyndir hjarta mitt,
kyssir með orðum huga minn
ástúðlega og leggur sitt,
líf og anda og kærleik sinn,
kinn við kinn.
Ljúfur er hennar lífsandinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.