Það er langt síðan ég hef lesið skáldsögu eftir íslenskan höfund sem ég hafði jafn mikla ánægju af. Hef eiginlega ekki lesið skáldsögur eftir þá um árabil. Nema fyrstu tíu síðurnar eða svo. Er fastur í þessum gömlu með Kiljan, Bjart og Hreggviðsson í efsta sæti.
Keypti nú þessa bók Sjóns í gær, Skuggabaldur, af rælni. Þá hafði ég eigrað um í bókabúð Máls og menningar og skoðað matreiðslubækur Nönnu. Það var á útleið og bókin í kilju. Svo þegar heim kom leit ég í bókina, sat við horngluggann, og las hana. Í einum rykk. Hún er þannig. Heldur manni við efnið og er því sem næst stórsniðug. Útsmogin og lúmsk. Og lýkur sér á 123 blaðsíðum. Maðurinn og tóan. Baldur Skuggason. Grasa-Friðrik og Abba. Itza í-addiga.