Og orðið varð maður

Í gærmorgun klukkan níu var ég mættur við Hallgrímskirkju í frosti og vindstreng eins og nætt hefur um Skólavörðuholtið undanfarna daga. Sem og aðrar hæðir þessa vindauðuga lands. Erindið var að næla í eintak af nýrri þýðingu Nýja testamentisins sem hvíslað hafði verið að mér að fengist í ritröð Biblíurita. Starfsmenn kirkjunnar voru þegar komnir á kreik og slangur af útlendum ferðamönnum.

Eftir lítilsháttar orðaskipti fékk ég eintak. Það gladdi mitt granna sinni og fannst mér vera logn þegar ég kom út. Á bílastæðinu vék sér að mér maður, klæddur kuldafötum með uppbrettan kraga og prjónahúfu niður fyrir eyru og niður í augu.

„Sæll Óli, ég á ekki fyrir klippingu.“
„Það er ekkert vit að láta klippa sig í svona kulda. Þú getur beðið heilaskaða.“
„Þú ert alltaf eins. Breytist ekkert.“
„Er nokkur ástæða til þess?“
„En áttu fyrir kaffi?“
Hann fékk klinkið mitt.
„Vá, fullt af hundrað köllum.“

Þegar heim kom hóf ég að lesa Jóhannes. Ekki stóran skammt. Las meðal annars: „Og Orðið varð maður…“ Las það þrisvar. Orðið varð maður. Hvert leiðir það í málvenju minni? Orðið varð hold. Holdtekja Orðsins. Orðið varð maður. Manntekja Orðsins. Í öðrum kafla staldraði ég við aftur. Ákvað að ræða við sjálfan mig um málið. Og minntist löngu liðins atviks.

Þá hafði ég eignast nýjan kunningja. Andlitsfall hans greyptist í vitund mína. Þið vitið hvernig þetta virkar. Maður fær á tilfinninguna skapgerð og persónuleika fólks eftir augnsvip þess og andlitsfalli. Munnsvipur hefur mikla þýðingu. Mér líkaði vel við þennan mann. Svo leið alllangur tími að við hittumst ekki. Þegar það gerðist næst hafði hann fengið falskar tennur. Stórar og miklar tennur sem yfirfylltu andlitið á honum. Og munnsvipurinn var fráhrindandi. Ég horfði lengi á hann. Leitaði að hlýjunni sem ég hafði áður séð í andlitsdráttunum. Kom ekki auga á hana. Eitthvað annað var komið í staðinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.