Sorgarviðbrögð

Það var í lyftunni hérna í blokkinni einn morguninn. Ég fór að sækja Moggan niður í anddyri. Var léttklæddur og meðal annars sokkalaus í inniskóm sem aðeins hafa band yfir ristina. Fólk á leið í vinnu bættist í lyftuna á leiðinni niður, kona á einni hæðinni, karl á næstu. Það er mjög sjaldgæft að fleiri en einn séu samferða í lyftunum og er það eitt af þessum dásamlegu atriðum í blokkinni.

Konan, sem virtist dálítið illa sofin, horfði niður allan tímann og fann ég fyrir því að vera sokkalaus því tærnar mínar hafa aldrei þótt líklegar til þátttöku í keppni um fegurð. Þegar lyftan stansaði niðri gat ég ekki séð betur en að konan væri farin að gráta. Þótti mér það afskaplega leiðinlegt og fann fyrir löngun til að segja eitthvað fallegt við hana. Hún leit þá á mig tárvotum augum og sagði: „Þær minna mig svo á manninn minn sáluga.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.