Mammoni allt

Í morgun las ég um það að „enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.“ Kristur er hér að fjalla um hjörtu manna. Hverju þeir skipi í efsta sæti þar. Síðan segir: „En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum. En hann sagði við þá: „Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar.““ Lk.16.

Við lifum núna á sérkennilegum tímum hér uppi á Íslandinu góða. Það liggur einhver villandi þoka yfir tilverunni. Móða og mistur, ofin úr ofvöxnu andrúmi fjármálahyggju og valdafíknar. Menn braska, svindla, villa um og virðast aldrei fá nóg. Þetta kemur víða fram og um fátt er rætt af jafnmiklum ákafa á síðustu misserum. Fjölmiðlar láta eins og þeir hafi fundið stóra sannleika lífsgátunnar og eiga það til að súpa hveljur af hrifningu.

Menn sem gáfu sig út fyrir að vera málsvarar og áhugamenn um velferð almúgans, hafa gengið af þeirri trú hver af öðrum og gefist andanum sem í fjármagninu býr og er af rótum sjálfselsku og eigingirni. Svo nálægt botni mannfyrirlitningarinnar hafa margir spámenn náð og svo langt niður eftir þjóðfélagsstiganum hafa áhrif græðginnar leitað að meira að segja verkamenn eru farnir að aféta jafningja sína sem birtist í því að fluttur er inn verkalýður á hálfum launum sem undirbýður heimamenn og hefur af þeim atvinnu.

Ríkasta þjóð í heimi, segir fólk! „Bunch of Money“, sagði trúbadorinn þegar hann fékk heiðursverðlaun fyrir vandaða íslensku. Það var við hæfi. Annar seldi tryggingarfélagi sál sína. Einn, sem árum saman flutti pistla á móti fjármagnseigendum með fyrirlitningu í röddinni, er nú gengin í félag við þá. Líkast er því að þjóðarsálin stynji einu rómi alla daga og alla nætur: Mammoni allt. Mammoni allt.

Í morgun las ég einnig um Gehasí, hvítan sem snjó.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.