Narcissus

Menn greinir á um trúarbænir í grunnskólum. Örlítill hópur fólks vill ekki að börn þess læri að biðja til Guðs. Sjálfsagt er að allir megi hafa sínar skoðanir. Það virðist samt ekki sanngjarnt að fara fram á það að börn 95% þjóðarinnar fari á mis við þær sjálfsögðu helgireglur að hefja starfsdaginn með einfaldri bæn. Margir hafa þá skoðun að það sé hollt og gott fyrir hvern og einn að hafa í huga og hjarta mynd af æðri persónu en sjálfum sér.

Reynsla í yfir tuttugu ára starfi sýndi mér að þegar brákað fólk leitaði aðstoðar við að endurheimta persónuleika sinn, áttu þeir einstaklingar auðveldara með að ná árangri sem höfðu í æsku lært fáein atriði um tilveru Guðs. Fáein grundvallararatriði, svo sem um stöðuga nálægð hans og óendanlega elsku. Leið þeirra til bata hófst með bæn sem byggði á grundvallaratriðunum. Bæn af sama meiði og þeir höfðu lært að tileinka sér sem börn.

Narcissus eftir LemoyneHeilög ritning er vissulega stórkostlegt bókasafn. Sumar bækur hennar búa yfir læknandi visku fyrir sál og huga. Ein þeirra er Ljóðaljóðin. Þau hefjast á lofgerð. Brúðurin, tákn hins trúaða einstaklings sem veit að Guð er ávalt nálægur, ávarpar hann og segir: „Hann kyssi mig kossi munns síns,“ eða með öðrum orðum, hann tali til mín sín yndislegu orð um elskuna sem er betri en lögmálið.

Lofgjörðin og bænin halda áfram: …„sólin hefir brennt mig,“ segir brúðurin, „ég gætti ekki míns eigin víngarðs.“ Brúðguminn hlustaði á lofið og bænina og hann svarar: „..þú hin fegursta meðal kvenna….“ Samtalið er hafið. Maðurinn lyftir hjarta sínu. Guð svarar. Lofgerðin fer stigvaxandi. Kraftur elsku og uppörvunar streymir á milli þeirra. „Hversu fögur ertu vina mín… …Hversu fagur ertu unnusti minn…“

Narcissus þekkti ekki þessa leyndardóma. Hann starði ofan í lindina á spegilmynd sína, yfirkominn af ást á sjálfum sér og í því hugarástandi veslaðist hann upp og dó.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.