Hverfisgata 44

Árið 1997, þegar okkur bauðst að kaupa bæði húsin, framhúsið og bakhúsið að Hverfisgötu 44, upplifðum við það sem enn eina áskorun frá Guði og andanum sem hafði brýnt okkur í starfinu fyrir Samhjálp hvítasunnumanna. Fyrst ræddi ég málið við Ástu mína og aðra nánustu samstarfsmenn. Síðan voru viðbrögðin þau að fara afsíðis og krjúpa og tala við Drottin. Þannig hafði ég fengist við allar stærri ákvarðanatökur í starfinu í tuttugu ár. Á hnjánum. Afsíðis. Og glímt.

Markmiðið með að koma upp aðstöðu fyrir Samhjálp hvítasunnumanna rétt við miðbæ Reykjavíkur helgaðist af þeim skilningi að nauðsynlegt væri að vera í nálægð við fólkið sem gekk úti um daga og nætur, í og við miðbæ Reykjavíkur. Bjóða því að setjast inn í hlý hýbýli, þiggja næringu og félagsskap. Þegar og ef það sjálft kysi. Bakhúsið, sem verið hafði aðalsalur Söngskólans í Reykjavík um árabil, hentaði sérlega vel til hlutverksins. Fast við hliðina á Þríbúðum og Stoðbýlinu í Hverfisgötu 42.

Þá opnaðist og sá möguleiki að flytja skrifstofurnar af 1. hæð Hverfisgötu 42 yfir í framhúsið í 44. Við það mundu skjólstæðingar stofnunarinnar fá allt húsið númer 42 til umráða. Og Guð kom inn í þessi andvörp og opnaði leiðina. Söngskólinn bauð eignina til kaups í apríl 1997. Formlegt tilboð var lagt fram í maí og kaupin gerð. Hönnun og breytingar á söngskólasalnum hófust þegar. Reykjavíkurdeild Rauða krossins og Félagsþjónustan í Reykjavík lögðu í púkkið við breytingarnar. Ný kaffistofa var opnuð með viðhöfn 21. október sama ár. Samhjálparvinir, starfsmenn og skjólstæðingar lofuðu Guð hástöfum.

Nú hefur Hverfisgata 44 verið seld. Framhúsið og bakhúsið með kaffistofunni. Og samkomulagið við Drottin þar með fellt úr gildi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.