Heilabrot II

Við vorum að tala um Walt Whitman. Hvað það gæti verið erfitt að skilgreina markmið hans. En þannig er auðvitað með allan texta. Þess vegna verður maður að leggja frá sér bók og taka hana upp aftur og nálgast textann frá annarri hlið. Ef við síðan segjum að í aðalatriðum séu hliðarnar fjórar eins og áttirnar, þá komum við fljótt að fyrstu hliðinni aftur. En nú er ekki víst að þú sjáir textann þaðan á sama hátt og við fyrstu lesningu, því auðvitað hefur ferðalag þitt umhverfis textann haft áhrif á viðhorf þín. Og þú verður að fara einn hring enn. Þetta veldur vissulega heilabrotum.

Já. Maður kemur aftur og aftur að efanum um niðurstöðuna. Bæði sína eigin sem og hinna sem hafa sett fram margvíslegar kenningar um hana. Og þótt það sé ekki alveg sársaukalaust þá sýnist manni nauðsynlegt að minna sjálfan sig á Descartes eina ferðina enn, sem hljóðar þannig í þýðingu Þorsteins Gylfasonar: „Í dag létti ég af mér öllum áhyggjum, tryggði mér ákjósanlegt næði, er einn út af fyrir mig, og hyggst snúa mér að því að rífa niður allar fyrri skoðanir mínar, í fyllstu alvöru og eins og mér sjálfum sýnist.“

En Whitman hughreystir lesandann í lokin. Hann segir, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar:
„Láttu ekki hugfallast þótt þú finnir mig ekki í fyrstu atrennu, / Farirðu á mis við mig á einum stað þá leitarðu bara á öðrum, / Einhverstaðar doka ég og bíð fundar við þig.“

Ef ég leyfi mér að vitna í inngang Sigurðar A. Magnússonar að bókinni Söngurinn um sjálfan mig, sem hann þýddi og hlýtur að vera verulegt afrek, þá lýsir hann upphafi að fimmta kaflanum og segir: „Kaflinn hefst á því að skáldið lýsir yfir trú á sál sína sem stillt er upp andspænis „hinu sem ég er líka“,.“ Hinu sem ég er líka. Það gæti verið þá, þegar menn byrja að fá grun um og játa samsetningu og andstæður persónu sinnar, að viðhorfin taka að mótast af minni fávisku.

„Hæfileikinn til að hugleiða sjálfan sig er manninum einum gefinn…,“ ritar Hegel. Og Rousseau segir: „Ég er ofurseldur tvennskonar lunderni sem skiptist mjög reglulega á …
…og kalla ég það vikusálirnar mínar…“ (Útisetur, bls.238-239).

Vísast tek ég Rousseau á orðinu. Færi mig frá skrifborðinu og ákveð að bíða eftir vikusál næstu viku.
Við Ásta mín getum þá sest við horngluggann með kaffið okkar og glaðst yfir hvort öðru.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.