Súrt rengi, bláar liljur og brúðarslör

Þegar Ásta kom heim úr vinnu í gær hafði hún meðferðis súrmat, bland í poka, til að færa karlinum sínum. Og blóm. Bláar liljur og brúðarslör. Hún hafði komið við í Nóatúni á Háaleitisbraut og verslað úr kjötborðinu. „Þarna var fullt af gömlum körlum sem voru svo frekir við afgreiðsluborðið og dónalegir, hölluðu sér yfir það og tróðu sér hver fram fyrir annan.

Þeir tóku ekkert tillit til þess að afgreiðslan fór fram eftir númeri sem fólk tók sér. Þeir voru illa til fara, illa greiddir og loðnir í eyrunum og með ruskulegar vanhirtar augabrúnir sem stóðu út í loftið. Ég komst naumast að til að velja matinn.“

Þetta sagði Ásta þegar ég spurði hana hvort ekki hefði verið gaman að kaupa súrmatinn. Og spurning mín byggðist á því hvað mér hafði alltaf þótt gaman að velja súrmat. Kannski er ég eins og hinir ljótu karlarnir.

Hvað um það. Það ríkti mikil gleði í hjarta mínu þegar við deildum matnum á fat sem við síðan tókum af á diskana okkar. Þarna var lundabaggi, súrsaðir pungar eða öllu heldur hrútseistu, sem á tímabili voru kölluð kviðsvið. Súr sviðasulta, hangikjöt, harðfiskur, rúgbrauð og flatkökur, franskt síldarsalat, ítalskt salat og kartöflusalat og súrsað rengi.

Rengið rifjaði upp fyrir mér fyrstu ferð mína upp í Borgarfjörð. Vorið 1948. Vinur foreldra minna, Jón Kr., hafði komið mér sem sumarstrák í sveit, á Svarfhóli. Ég var ellefu ára. Þeir komu og sóttu mig heim á Bjarg, bóndinn Jósef Björnsson, og vinnumaðurinn Rafn Ásgeirsson, ævinlega kallaður Rabbi þótt hann héti Garðar. Þeir komu á nýjum Willys jeppa, væntanlega CJ-3A, með kerru aftan í. Rabbi ók.

Bíllinn var yfirfullur af vörum og farangri og varla rúm fyrir mig innan um dótið. En á þessum árum tók ég ekki mikið pláss! Ég sat fyrir miðju afturí og gat fylgst með gírskiptingum og hraðamæli og lifði mig inn í þetta af mikilli áfergju og aðdáun. Og vááá, hann fór stundum í sextíu. Það voru margar beygjur og brekkur í Hvalfirði á þessum árum og útskot þar sem bílar gátu mæst.

Ég rifjaði þessa ferð upp í gær yfir renginu. Það var nefnilega stansað í hvalstöðinni í Hvalfirði og þar keyptu þeir býsn af rengi. Og þegar heim að Svarfhóli kom tók húsfreyjan, Jóhanna, að sjóða rengið og setja það í súr. Eftir hæfilega langan tíma var það alltaf á borðum. Oftast mjög gott. Og þetta sagði ég Ástu á meðan ég smjattaði súra renginu sem hún hafði keypt handa mér þótt hún hafi engan áhuga á því sjálf, þessi elska.

3 svör við “Súrt rengi, bláar liljur og brúðarslör”

  1. Sæl vertu Helga Björk.
    Takk fyrir þessa athugasemd. Hún gladdi mig.
    Og nú er Rabbi fallinn frá. Ég finn til saknaðar.
    Bestu kveðjur til þín og þinna við fráfall hans.

  2. Virkilega gaman að lesa þessa færslu. Er barnabarn hans Rabba:)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.