Forsælan og silfrið

Það voru svo fallegir dagar í vikunni. Heiðskír himinn, sólin skær og björt. Og logn. Stillilogn. Hitastig lítið undir frostmarki. Orðsnilld Tómasar kom upp í hugann. Fagra veröld. Og Satchmos gamla. Wonderful World. Ók niður að höfn. Lagði bílnum við verbúðarbryggjurnar sem svo hétu. Horfði á litadýrð fiskibáta og skipa. Minntist löngu liðinna daga. Þá fórum við bræðurnir stundum þarna niður eftir til að horfa á ysinn og þysinn. Og veiða. Nú var allt kyrrt þarna.

Lesa áfram„Forsælan og silfrið“

Öskudagur

Þess er vert að geta að síðastliðinn sunnudag hófst í Ríkisútvarpinu, rás eitt, nýr þáttur, klukkan 09.03. Ber hann yfirskriftina „Sköpunarstef í textum og tónum.” Umsjónarmenn þáttarins eru Kristinn Ólason og Helgi Jónsson. Fyrsti þátturinn lofar góðu um framhaldið, en samtals verða þeir sjö. Leyfi ég mér að vekja athygli á því að þessi fyrsti þáttur verður endurfluttur í kvöld kl. 20:15.

Lesa áfram„Öskudagur“

Konudagur

Konudagurinn er í dag. Konudagurinn, með greini. Eins og það sé aðeins einn dagur sem tileinkaður er konum. Í mínu húsi eru allir dagar, dagar eiginkonunnar. Það hefur væntanlega breyst nokkuð með árunum. Þó var það þannig í fyrstu. Minnist daga þar sem mér fannst ég mundi deyja ef við hittumst ekki eða heyrðumst. Man eftir afmælisdagabók frá unglingsárunum þar sem eftirfarandi vísa var á degi stúlkunnar sem töfraði mig:

Lesa áfram„Konudagur“

Hrúturinn á Gilsbakka

Það var hrútur á Gilsbakka sem hét Malkus. Síðan eru liðlega fimmtíu ár. Muni ég rétt þá var þetta stór og mikill hvítur hrútur, kollóttur með aðeins eitt eyra. Það var hans sérkenni. Vafalaust hefur hann misst annað eyrað í vír eða annan háska. Menn sögðu að nafnið á hrútnum væri biblíulegt og greindu frá atburðum. Það þótti mér fyndið.

Lesa áfram„Hrúturinn á Gilsbakka“

Blessuð bókin

Við mættum á fyrirlestur í Hallgrímskirkju í morgun klukkan tíu. Við Ásta. Það er dagur Biblíunnar. Ritningin hefur haft svo mikla þýðingu í lífi okkar í fjörutíu ár. Blessuð bókin. Það var samt nokkuð merkilegt hvernig hún vakti mig fyrst. Það var með orði úr prédikaranum: „Allt er hégómi. Aumasti hégómi. Og eftirsókn eftir vindi.” Og þannig hafði skoðun mín verið og nú fannst mér vit í Biblíunni og hún verð lesningar.

Lesa áfram„Blessuð bókin“

Þá var nótt

Íslendingar tala oft um skammdegi, dimmuna á haustin og langar vetrarnætur. Síðan um hækkandi sól og lengingu dags um „hænufet á dag”. Þeir verða harla glaðlegir þegar birtan ræður lengri tíma sólarhringsins. Og víst er það allt saman gott og blessað. Skáldið Stefán frá Hvítadal orti um vorkomuna: „Nú finn ég vorsins heiði í hjarta. / Horfin, dáin nóttin svarta. / Ótal drauma blíða, bjarta / barstu, vorsól, inn til mín. / Það er engin þörf að kvarta, / þegar blessuð sólin skín.“

En á öðrum sviðum mannlegs lífs, þess hins andlega, fer ljós og myrkur ekki endilega eftir dagatali. Margir einstaklingar, menn af báðum kynjum, búa við myrkur í hjarta og sinni þótt sólin skíni í heiði. Fregnir berast á þessum vikum um váleg örlög fólks sem nóttin yfirbugaði og máttur myrkursins tók yfir. Máttur sem hefði ekki þurft að fá frjálsar hendur.

„En þetta er yðar tími og máttur myrkranna,” sagði meistarinn frá Nasaret, þegar valdsmennirnir komu til að taka hann fastan. Hann talaði um máttinn í myrkrinu, máttinn sem hataði ljósið. Aftur og aftur kemur fram í upplýsingu hans að svið sálarlífsins eru í grundvallaratriðum tvö, ljós og myrkur. „Og myrkrið tók ekki á móti ljósinu.” Það eru hræðileg örlög, hvers sem þau hlýtur, þegar máttur myrkursins tekur yfir stjórn hugans og knýr fram vilja sinn.

„Þá var nótt,” segir ritningin í frásögunni af Júdasi, en myrkrið í huga hans hafði tekið völdin af honum. Myrkrið í huga hans. Það er nefnilega merkilegt fyrirbæri þessi HUGUR. Allt veltur á því hvað í hann er sett. Menn eiga þar val.

Svo eitthvað sé nefnt

Maður finnur fyrir vori. Þetta er þannig dagur. Sunnan þeyr, framan af degi að minnsta kosti, og súld. Fór út í vorið með það eitt í huga. Þegar erindum var lokið gat ég ekki hugsað mér að fara inn í hús strax. Vesenaðist í miðbænum um stund. Þar var talsverð umferð. Gangandi fólk og skelli hlægjandi skólakrakkar. Og svo auðvitað bíl við bíl niður Laugveg og vestur Austurstræti

Lesa áfram„Svo eitthvað sé nefnt“

En víst er ástin til

„Að neita fyrirgefningu og náð, þessu tvennu sem gert hefir lífið þess vert að lifa því, það er líkast því að neita því að ást sé til.” Þessi setning er í Lesbók Moggans í morgun, úr bréfi Ragnars í Smára til Matthíasar ritstjóra fyrir mörgum árum. Ragnar er að tala um Þórberg Þórðarson og skoðanir hans á eilífðarmálum. Verið er að minnast Ragnars, þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans.

Menn muna Ragnar. Hann var svo oft í grennd. Kenndur við smjörlíkisgerðina Smára. Stóð á bak við Halldór Kiljan Laxness og bækur hans og fleiri. Gaf út eftirprentanir af málverkum og sinnti tónlist. Hann lét ekki mikið á sér bera. Kom þó ákveðið í ljós við forsetakosningar eitt árið. Það er önnur saga.

Menn fóru og keyptu sér bækur og bókasöfn í Helgafelli. Biðu ávallt með eftirvæntingu eftir bókum Halldórs Laxness. Komu við á Veghúsastígnum í dagslok á leið heim úr vinnu, keyptu sér bók og tóku að lesa og gleymdu að sofa. En urðu aldrei sáttir við Fjallamjólkina í eftirprentun. Það tókst ekki að eftirprenta ástina.

Kálfinn um Ragnar í Lesbókinni í morgun, ættu allir að lesa. Það er kraftur í greinunum eins og það var kraftur í manninum sem þær fjallar um. Sá kraftur smitar frá sér og gerir manni gott.

Strákar í vanda

Maður nokkur átti tvo unga syni. Þetta voru kraftmiklir strákar sem stöðugt komu sér í vanda með tiltækjum sínum. Faðir þeirra ákvað dag einn að ræða við þá um guðfræðileg efni, ef það mætti verða til þess að koma þeim til betri vegar. Eitt sinn þegar eldri drengurinn var úti að leika sér kallaði faðirinn á þann yngri og sagði:

„Siggi, hvar er Guð?” Siggi leit hægt upp á föður sinn, leit á hann tómlátum augum og þagði. Eftir allanga þögn spurði faðirinn aftur: „Siggi, hvar er Guð?” Engin svipbrigði sáust á drengnum sem stöðugt horfði á föður sinn, þögull. Í þriðja sinn reyndi pabbinn: „Siggi, veistu hvar Guð er?” Þegar hann fékk enn ekkert svar sýndist honum að rökræðurnar um Guð yrðu að bíða þar til síðar. Hann sagði því:

„Allt í lagi vinur, farðu bara út að leika þér.” Siggi lét ekki segja sér það tvisvar og hljóp í spretti út og bak við húsið þar sem eldri bróðir hans var að leik. Honum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði: „Nonni, við erum í miklum vanda staddir. Guð er týndur og pabbi heldur að við höfum tekið hann.”

Heimur fuglanna

Lífið tekur stöðugum breytingum. Hérna hjá okkur Ástu, á sjöundu hæðinni, hefur það gerst að hornglugginn, sem við hófum hvern dag við, með kaffi og samræðum, hefur að mestu misst sinn daglega sess. Það helgast af því að Ásta hefur síðastliðinn mánuð mætt til vinnu klukkan sjö á morgnana. Sem þýðir að hún gefur sér ekki tíma fyrir hornglugga, kaffisopa og spjall. Sjálfur hef ég svifið á vængjum lyftunnar niður í póstkassa og sótt Moggann. Á bakaleiðinni, svo til á hverjum morgni, hef ég sagt við sjálfan mig að næsta morgun skuli ég ganga stigana.

Lesa áfram„Heimur fuglanna“