Heimur fuglanna

Lífið tekur stöðugum breytingum. Hérna hjá okkur Ástu, á sjöundu hæðinni, hefur það gerst að hornglugginn, sem við hófum hvern dag við, með kaffi og samræðum, hefur að mestu misst sinn daglega sess. Það helgast af því að Ásta hefur síðastliðinn mánuð mætt til vinnu klukkan sjö á morgnana. Sem þýðir að hún gefur sér ekki tíma fyrir hornglugga, kaffisopa og spjall. Sjálfur hef ég svifið á vængjum lyftunnar niður í póstkassa og sótt Moggann. Á bakaleiðinni, svo til á hverjum morgni, hef ég sagt við sjálfan mig að næsta morgun skuli ég ganga stigana.

Það eru samt viðburðir í síðustu viku sem ég kemst ekki hjá að nefna.Við fórum tvisvar í Háskólabíó, fimmtudag og laugardag. Upplifðum stórkostlega hluti. Fyrra tilvikið var á fimmtudagskvöldinu. Þá voru sinfóníutónleikar. Við erum áskrifendur að rauðri röð. Höfum verið það um árabil. Seinna verkið á hljómleikum gladdi okkur sérstaklega. Þá var flutt sinfónía nr. 4 í c moll eftir Shostakovitsj.

Þetta voru áhrifamiklir og stórkostlegir tónleikar. Hljómsveitina höfum við ekki séð eins stóra og í þessu verki og flutningurinn hennar var frábær. Það sem hjálpaði mjög til við skilning á verkinu var efnisskráin. Í henni var greint frá tónskáldinu, ferli þess og hremmingum í hörmungum Stalíntímans, þar sem það lifði í stöðugum ótta um líf sitt. Hann var kallaður „óvinur alþýðunnar” þegar ofsóknir Stalíntímans náðu hámarki, 1936 -37, og var sinfónían ekki flutt fyrr en 25 árum seinna. Þögnin í lok verksins, djúp og löng, hafði margfalda merkingu af lestri kynningarinnar. Afar áhrifaríkt.

Hitt skiptið var þrjúbíó á laugardag. Þá sáum við myndina Heim farfuglanna. Höfum engin orð til að lýsa aðdáun okkar og hrifningu. Hver takan á fætur annarri frábær. Maður hverfur til æskudaga. Æskudaga í sveit á sumrum þegar nálægðin við lífið og náttúruna var í algleymi. Vorið og gróðurinn. Vorið og döggin. Vorið og fuglarnir. Fuglarnir, þessir elskulegu vinir, stórir og smáir, sem komu til landsins í móana, flóana og á heiðarnar og vötnin, eftir þúsund mílna flug. Á æskuslóðir sínar. Í flokkum. Og í barnshuganum vöknuðu svo margar spurningar um líf þeirra og ferðalög og bernskustöðvaást. Þrá. Myndin, Heimur farfuglanna, svarar mörgum af þessum spurningum og minnir mann á hvað lífið getur verið dásamlegt. Það er svo ljúft.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.