Konudagur

Konudagurinn er í dag. Konudagurinn, með greini. Eins og það sé aðeins einn dagur sem tileinkaður er konum. Í mínu húsi eru allir dagar, dagar eiginkonunnar. Það hefur væntanlega breyst nokkuð með árunum. Þó var það þannig í fyrstu. Minnist daga þar sem mér fannst ég mundi deyja ef við hittumst ekki eða heyrðumst. Man eftir afmælisdagabók frá unglingsárunum þar sem eftirfarandi vísa var á degi stúlkunnar sem töfraði mig:

„Hvað er fegra en sólarsýn, / þá sveimar hún yfir stjörnurann. / Hún vermir, hún skín / og hýr gleður mann.” Það er mikil hlýja í þessum orðum. Hlýja, lík þeirri sem stúlkan sú hefir látið té í umhverfi sínu. Hlýja með fyrirheitum eins og vordagar fara fyrir sumri. Og það eru vordagar við Horngluggann okkar Ástu. Hópur hestamanna ríður hjá. Á góðgangi flestir. Og gleðja augu, sál og sinni, þeirra sem á horfa og rifja upp árin hin fyrri.

Árin hin fyrri. Það er svo margs að minnast. Bjartar nætur Stefáns frá Hvítadal koma upp í hugann: „…Á meðan blundar svefnþung sveit, / ég sæki yngsta hestinn minn. / Á hann skal verða hætt og treyst. / Ég hnakkinn minn á folann legg…” En kannski eru árin þessi þeim fyrri fremri, þegar Spekin ljáir vængi sem lyfta hug og hjarta til víðari skilnings og meiri verðmæta. „Konan er höfn,” segir í ljóði eftir látinn verkfræðing. „Konan er höfn.” Látum það vera orð dagsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.