Ekkert gera og ekkert vera

Það er nú ekki margt sem hrífur í öllu þessu hafaríi út af bók Hannesar Hólmsteins um Halldór Laxness. Uss, nei. Og með ólíkindum hvað allt þetta fólk sem skipar sér í hóp manna með gáfur og menntun getur látið barnalega og hamast og rembst. Auðvitað hef ég ekki lesið bókina, veit ekki hvort ég geri það nokkurn tímann. Samt hef ég lesið bækur Kiljans í hálfa öld. Með mikilli ánægju og dái sumar þeirra ákaflega.

Það að ég dirfist að gera örlítinn pistil um ysinn og þysinn, eins og Þorbergur orti um Ísafjörð, eru tvær línur í örsmáu letri eftir Jóhannes Kjarval framan við grein eftir Hannes Hólmstein í Lesbók Moggans á laugardag. Ég set línurnar innan gæsalappa. Til vara!
„Ef þú vilt koma í veg fyrir að vera gagnrýndur, þá skaltu ekkert gera, ekkert segja og ekkert vera.“

Þetta er að sjálfsögðu bráðmerkileg setning. Og fyrir menn eins og mig, menn á góðum aldri, sem oft sáum Kjarval og heyrðum til hans niður í miðbæ á árum áður, fær setningin meira líf. Svo furðulega yndislegur sem karlinn var og frakkinn og hatturinn. Og Bréf frá London og meira grjót. Kristján Karlsson lagði líka í púkkið um helgina svo ágætar myndir um geitur í París og fleira.

Upp í hugann kemur þessi glimrandi vísa eftir hinn mikla höfund. Vona að ég muni hana rétt.

Fuglinn flaug á vængjunum á sér
og settist á vegginn á rassinn á sér,
þá kom maður með byssu á sér
og skaut fuglinn í hausinn á sér.

Það voru samt orð Kjarvals sem hittu mig: „[…] þá skaltu ekkert gera, ekkert segja og ekkert vera.“ Og boðskapur þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.