Stofninn og hríslurnar

Las litla ánægjulega frétt í dagblaði nýlega. Þar var sagt frá því þegar kynntar voru tvær nýútkomnar bækur Hins íslenska bókmenntafélags. Bækurnar eru Kristin siðfræði í sögu og samtíð og er höfundur hennar dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson. Hin bókin heitir Um ánauð viljans og er eftir Martein Lúter, þýdd af Jóni Árna Jónssyni og Gottskálki Þór Jenssyni, en hann og fyrrnefndur dr. Sigurjón Árni skrifa báðir inngang að þeirri bók.

Nýi menntamálaráðherrann, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ásamt biskupi þjóðkirkjunnar, Karli Sigurbjörnssyni, voru viðstödd kynninguna og var þeim afhent fyrsta eintak bókar dr. Sigurjóns svo og Um ánauð viljans. Það sem vakti mig til umhugsunar var setning sem Brynjólfur Ólason hafði eftir Þorgerði Katrínu í pistli en hún sagðist hafa mikla ánægju af að taka við bókunum þótt hún væri kaþólskrar trúar, en bæði ritin eru Lútersk, vel að merkja, í þeim skilningi að bók dr. Sigurjóns fjallar um skoðanir Lúters og hugsun og hin er skrifuð af honum.

Ég ók niður Hallarmúla í morgun þegar spurning flaug í hausinn á mér fyrirvaralaust. Hverju mundi ég svara ef ég væri spurður hverrar trúar ég væri? Það er nú það, hugsaði ég, hverju mundi ég svara? Þetta reyndi á og til að koma í veg fyrir akstursvillu ók ég inn á nærliggjandi bílastæði. Já, hverju mundi ég svara? Og í framhaldi af því spurði ég sjálfan mig hverrar trúar ég væri.

Það er nefnilega allstór spurning. Spurning um skilgreiningu. Maður getur velt því fyrir sér hvað það er að vera kaþólskrar trúar. Eða lúterskrar. Það eru nefnilega til ýmsar útgáfur af þeim báðum. Niðurstaða mín er sú að ég sé Jesú-trúar. Einfaldlega. En það orð er ekki viðurkennt. Heyri það aldrei notað. Menn segjast í besta falli vera kristinnar trúar, sem ekki segir til um hvaða grein eða hríslu þeir telja sig heyra til.

Spurning vaknar um það hvort verið sé að segja kristin kaþólsk trú, eða og kristin lútersk- trú. Ekki kom Kristur til mín í gegnum reglur eða stofnun. Nei, hann kom til mín í gegnum ritninguna, Orð Guðs, tendrað af einföldum lærisveinum úti á landi sem ekki boðuðu stofnun, félag eða kerfi. Aðeins Jesúm. Orðið. Það var ekki fyrr en seinna sem þeir tóku að tala um stofnun.

Hvað um það. Ég gekk úr einni trúarlegri stofnun og inn í aðra. Það var fyrir fjörutíu árum. Vegna vina minna, manna sem ég unni. Í dag er sú stofnun ekkert lík þeirri sem ég gekk í þótt hún heiti það sama og áður. Nei, sei, sei, nei. Og ég kemst að þeirri niðurstöðu í framhaldi af spurningunni sem steypti sér yfir mig í morgun, að ég er einfaldlega Jesú-trúar. Hann er Drottinn minn og frelsari. Stofninn. Á við mig „orðastað“ á hverjum degi og sinnir mér. Það er svo undursamlegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.