Best vina

Dagur bókarinnar. Á alheimsvísu. Mér finnst ekki hægt annað en að nefna það. Íslenski sérfræðingurinn segir þó í grein í Mogganum í morgun: „Ekki kemur blogg í bókarstað.” Ég veit ekki hvort hann hugsar þá fremur sem lesandi eða höfundur. Kannski bæði. Hvað um það. Málið snýst að sjálfsögðu um hugsun sem fer milli manna. Orðin eru tækin sem móta hugsunina og gera kleyft að flytja hana frá manni til manns, hvort sem þau eru töluð eða skrifuð.

Bók? Halldór Laxnes sagði við eitthvert tækifæri, þegar rætt var um stjórnmálaskoðanir, „að það væri ekki endilega víst að þær bækur sem manni líkaði við á yngri árum nytu sömu hylli manns alla ævi.” En menn horfa gjarnan um bókahillurnar og skoða bækurnar sínar og rifjar upp hvað sumar þeirra gátu, fyrir mörgum árum síðan, vakið yndislegar tilfinningar og orðið miklir vinir. Þótt ekki sé hægt, með nokkru móti, að lesa þær með sama ákafa síðar.

Hef stundum sagt frá því að þegar Brekkukotsannáll kom út, keypti ég hana á leið heim úr vinnu og las hana um kvöldið og nóttina. Lauk henni um það leyti sem klukkan hringdi. Skrópaði í vinnunni. Hélt hughrifunum af þessum „eina tóni sem er hreinn.” Síðar urðu öðruvísi bækur til þess að fanga hugann og koma sér upp aðstöðu þar. Það eru þessar sem byggja á visku og sígildum niðurstöðum mannsandans í gengum veraldarsöguna.

Slíkar bækur hafa umvafið mann vináttu genginna kynslóða. Knúið dyra þegar syrti í álinn og sefað hugarangur, eða hlaupið með á góðgangi betri stundanna, en ætíð lagt til bætandi andblæ við sérhverja ígrundun. Þannig er með Orðið sem í upphafi lauk upp lífinu og þannig er með Orðið sem í dag annast um næringuna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.