Erfitt að skilja

Afskaplega er það margt sem karl eins og ég á erfitt með að skilja. Jafnvel hin einföldustu mál geta vakið honum undrun og furðu. Eins og til dæmis lestur dagblaða. Ekki er mér nokkur lifandi leið að átta mig á fólki sem lætur sér nægja að lesa Fréttablaðið eitt blaða og mynda sér skoðanir á málefnum dægranna út frá efni þess.

Fyrir mér er Fréttablaðið í rauninni ósköp horað blað, sem telst nokkuð merkilegt miðað við hvað þar starfa, innanum, ágætir fjölmiðlamenn. En kannski fá þeir engu að ráða um efnisval og breidd. Sé það svo, þá er auðvitað ekki við góðu að búast. Sama hvað blaðamennirnir eru færir. En Fréttablaðið er ókeypis og reikna má með að það valdi því að margir láta sér nægja lestur þess.

Morgunblaðið er mitt blað. Ég hef keypt það frá unglingsárum. Þegar við bræðurnir lukum göngu okkar á rúntinum í Reykjavík, fyrir svo sem eins og sorglega mörgum árum síðan, enduðum við gjarnan kvöldlífið með því að kaupa Mogga næsta dags blautan úr prentvélunum. Það var nautn. Og við treystum Mogganum oftast miklu betur en t.d. Tímanum, Alþýðublaðinu og Vísi, eða hvað nú öll flóran hét. Mogganum ritstýrðu líka margir merkir menn á okkar tíð og Matthías lengst og Styrmir.

Nýjasta dæmi um ánægju mína með Moggann er umfjöllun blaðsins um fátækt á Íslandi. Það gera ekki aðrir betur. Enda því líkast að mjög fáir, hvar í flokki sem þeir standa, hafi nokkurn sérstakan áhuga á fátæku fólki. Virðist manni að áhugi þeirra beinist miklu fremur að eigin aðstöðu og eigin ávinningi.

Það eru annars tvær fréttir um þessa helgi sem vöktu athygli mína umfram aðrar. Önnur er um íslenskt lyfjafyrirtæki sem kaupir og yfirtekur stórt lyfjafyrirtæki í bandaríkjunum. Var ekki verðið um 30 milljarðar? Sama íslenska fyrirtæki hefur ekki treyst sér til að selja Íslendingum lyf á jafnlágu verði og það selur Dönum þau. Það minnir óneitanlega á að á einni tíð kostaði flugfar milli landa alltaf meira þegar Íslendingar keyptu farmiða.

Hin fréttin er úr herbúðum stjórnmálamanna sem kenna sig við sameinaða vinstri-miðju. Nýkjörin formaður segir, með þungri áherslu, að aðalmálið sé að koma núverandi ríkisstjórn frá völdum. Svo mörg eru þau orð. Hefði ekki hljómað trúverðugar að sagt hefði verið að aðalmálið væri að bæta hag hinna lakast settu og jafna kjör, og til þess þyrfti að skipta um ríkisstjórn?

Hún kemur upp í hugann spurningin sem Stefán Snævarr, prófessor í heimspeki, setur fram í bók sinni Ástarspekt, en þar segir neðanmáls á blaðsíðu 180: „Og er hin marxíska hugmynd um stéttarbaráttuna nokkuð annað en tilbrigði við stef frjálshyggjunnar um samkeppnina?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.