Dagarnir eru margvíslegir. Landsmenn hafa fagnað ákaflega yfir sólinni. Og logninu. Ekki má gleyma því. Enda flokkast slík veðursæld undir blíðu sem er fremur sjaldgæf á vindhólmanum okkar. En það er ekki nóg að sólin skíni. Það eru ótal önnur atriði sem verða að vera í lagi til þess að fólk geti notið blíðunnar.
Ef fólk á ekki fyrir mat fyrir börnin sín þá nýtur það ekki sólar. Ef ekki er til fyrir afborgun af láni, vöxtum og verðtryggingu, þá nýtur það ekki sólar. Ef ekki er von um atvinnu, þá nýtur það ekki sólar. Ef búið er að taka bílinn og þriðja uppboðá íbúð auglýst næsta dag, þá nýtur fólk ekki sólar.
Það er því ekki einhlýtt, þegar fjölmiðlar fara í Nauthólsvík og gantast með þeim sem þar eru áhyggjulitlir, að reikna með að allir geti tekið þátt í gantinu. Í dag voru laun þingmanna skilgreind í sjónvarpi. Meðaltal launa þeirra er liðlega átta hundruð þúsund krónur á mánuði. Slík laun geta auðveldlega breytt venjulegu fólki í vindhana. Vindhana á vindhólma.
Ég heyrði af einstæðri móður. Hún hefur fyrir þrem börnum að sjá. Karlinn flúði þegar allt var komið í strand hjá þeim. Hann hafði misst vinnuna. Skuldir voru talsverðar. Eiginkonan var hætt að tala. Börnin hætt að fara í skólann. Þannig er staðan í alltof, alltof mörgum húsum.
Maður heyrir af Alþingi kokhraust fólk tala um hálsbindi. Kokhraust fólk hreykja sér af því að sniðganga kirkjur og um leið trúna á Jesúm Krist. Sem það gerir lítið úr. En það skilur ekki að Jesús Kristur er eini griðastaður einstæðu móðurinnar. Orð hans og andi sefa sorgir hennar og harma og auka henni þrek til að halda út. Með börnunum sínum sem hún leggur sig fram um að hughreysta.
Á meðan er kerfið er upptekið við vindmyllurnar sínar.